25/04/2024

Friðarbarnið frumsýnt

Söngleikurinn Friðarbarnið var frumsýndur í Hólmavíkurkirkju nú í dag fyrir fullu húsi. Tókst sýningin með miklum ágætum. Næsta sýning er á Drangsnesi annað kvöld kl. 20:00. Leikendur í verkinu eru nemendur í grunnskólum á Ströndum, flestir á fermingaraldri.

Söngleikurinn var þýddur sérstaklega fyrir sýninguna og er því um frumsýningu á Íslandi að ræða.

Leikhópnum hefur verið boðið á kirkjulistahátíð um Jónsmessuna til að sýna söngleikinn og eftir áramót stendur til að taka tónlistina úr verkinu upp á geisladisk sem verður síðan væntanlega notaður í æskulýðsstarfi kirkjunnar.

Til stendur að taka Friðarbarnið aftur upp þegar fer að vora og þá með þátttöku fermingarbarna úr Árneshreppi, en þau áttu ekki heimangegnt vegna tíðarfarsins undanfarið.

Uppsetningin er styrkt úr Æskulýðssjóði Menntamálaráðuneytisins.