26/04/2024

Framlög á fjárlögum til Stranda

Í breytingatillögum meirihluta fjárlaganefndar Alþingis við aðra umræðu um fjárlög fyrir árið 2006 sem fram fer á morgun eru nokkrar tillögur sem tengjast Ströndum. Venja er að við aðra umræðu komi fram margvíslegar breytingatillögur nefndarinnar og sundurliðanir á útgjöldum, m.a. stuðningur við margvísleg menningarverkefni víðs vegar um landið. Meirihluti fjárlaganefndar gerir að þessu sinni tillögu um að verkefnið Gestastofa og þjónustuhús í Árneshreppi fái 2 milljónir í framlag og einnig fær verkefni um nýsköpun og markaðsmál í Árneshreppi á Ströndum 5 milljóna framlag.


Þá er lagt til að Galdrasýning á Ströndum fái 5 milljónir í framlag og Sauðfjársetur á Ströndum fái 3 milljónir til kaupa á húsnæði að Skeiði 3 á Hólmavík. Lagt er til að Kaldrananeskirkja fái 3 milljónir í gegnum Húsafriðunarsjóð. Ennfremur að hákarlahjallur í landi Asparvíkur fái 1 milljón og hákarlahjallar og skemma á Reyðarhlein á Dröngum fái 1 milljón í framlag. Verksmiðjubygging síldarverksmiðjunnar á Djúpavík á Ströndum fær einnig 1 milljón í gegnum Húsafriðunarsjóð samkvæmt tillögu meirihlutans.

Þá er lagt til að Strandmenningarverkefnið NORCE sem Strandamenn eru meðlimir að í gegnum Byggðasafnið á Reykjum fái 5 milljónir og útgáfa á bókinni Strandir – jarðalýsingar og ábúendatöl sem nú er á lokastigi fær 1 milljón í styrk.

Lendingabætur í Ingólfsfirði fá framlag að upphæð 900 þúsund og lendingarbætur í Karlshöfn á Gjögri 200 þúsund.