04/10/2024

Framfarasporið 2007 fór á Drangsnes

{mosvideo xsrc="ferdathjonn2007" align="right"}Hjónin Ásbjörn Magnússon og Valgerður Magnúsdóttir eru að mati þátttakenda Arnkötlu 2008, ferðaþjónar ársins 2007. Þau hafa staðið sig afbragðsvel í að hlúa að ferðaþjónustu á svæðinu og opnuðu á síðasta ári nýtt gisthús og glæsilegt veitingahús á Drangsnesi. Framfarasporið 2007 er viðurkenning sem er veitt af Arnkötlu 2008 og er eftir listakonuna Ástu Þórisdóttur sem afhenti þeim hjónum viðurkenningargripinn. Framfarasporið 2007 mun væntanlega prýða veggi veitingastaðarins Malarhorn á Drangsnesi um alla ókomna framtíð.

 Arnkatla 2008 eru samtök ferðaþjónustuaðila á Ströndum og Reykhólasveit hélt uppskeruhátíð á veitingastaðnum Café Riis í gærkvöldi, í lok tveggja daga stefnumótunarfundar. Á fundinum var stefna verkefnisins mörkuð fram til ársins 2012 og innan tíðar mun liggja fyrir nokkuð nákvæmt aðgerðarplan. Vegna veðurs undanfarna daga varð þátttaka á fundinum ekki alveg jafn góð og vonast hafði verið til, en ferðaþjónustuaðilar úr Árneshreppi og Reykhólasveit áttu ekki heimangengt vegna veðurs. Engu að síður var mikill hugur í fundarmönnum en um það bil þrjátíu aðilar eiga aðild að Arnkötluverkefninu. Sævar Kristinsson rekstrarráðgjafi hjá Netspor stýrði vinnunni á fundinum.