22/12/2024

Flöskuskeyti frá Færeyjum

Síðastliðið sumar, þann 23. júlí, fundu Björk Guðjónsdóttir og Jón Hallur Jóhannsson flöskuskeyti í fjörunni í Naustavík í landi Heydalsár við Steingrímsfjörð, þegar þau voru þar við rannsóknir á fuglum. Skeytið var í plastflösku (gosflösku) á sjávarkambinum nokkru ofan sjávarmáls innan um ýmis konar reka. Bréfið sem í flöskunni var reyndist skrifað af fjórum færeyskum stúlkum sem heita Barbara, Katarina, Malen og Hanna. Flöskunni var kastað í sjóinn 12. september 2008 við bæinn Viðareiði á Viðoy nyrst í Færeyjarklasanum. Það liðu því tæp 2 ár þar til skeytið fannst, en óvíst er hve lengi það hefur legið í fjörunni.

Í bréfinu lýsa stúlkurnar hinum ýmsu áhugamálum sínum, m.a. að þær hafi mikinn áhuga á dýrum og sérstaklega hestum. Finnendurnir hafa verið í síma- og tölvusambandi við stúlkurnar og foreldra þeirra. Það þykir nokkrum tíðindum sæta að kveðja frá Færeyjum berist til Stranda á ekki lengri tíma en raun ber vitni.