22/11/2024

Fjórðungsþing Vestfirðinga á Hólmavík

Fimmtugasta og fimmta Fjórðungsþing Vestfirðinga verður sett á Hólmavík kl. 10.30 föstudaginn 3. september næstkomandi og stendur fram á laugardag. Þingið fer fram í Félagsheimilinu á Hólmavík og þar verða nefndarstörf einnig.  Fyrir utan hefðbundin þingstörf mun Aðalsteinn Óskarsson framkvæmdastjóri Fjórðungssambandsins og Þorgeir Pálsson framkvæmdarstjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða kynna framvindu í sóknaráætlun fyrir Vestfirði.

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra mun ræða um undirbúning aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins. Arnheiður Jónsdóttir verkefnastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga og Sigurður H. Helgason framkvæmdarstjóri Stjórnarhátta ehf munu fjalla um eflingu velferðarþjónustu sveitarfélaga og flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Fastanefnd um samgöngumál mun kynna skýrslu sína. Ýmsar stofnanir sem sinna málefnum Vestfirðinga og starfa á Vestfjörðum kynna starfsemi sína á þinginu.

Auk framangreinda munu Kristján L. Möller, samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra og Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga ávarpa þingið.

Á þinginu verður kjörin ný stjórn sambandsins, formaður stjórnar, samgöngunefnd og Heilbrigðisnefnd Vestfjarða. Þá verður að venju hefðbundin dagskrá, afgreiðsla þingmála og fleira. Dagskrána má nálgast í heild á vef Fjórðungssambands Vestfirðinga, www.fjordungssamband.is.