22/12/2024

Fjórðungssambandið fagnar tillögum í samgönguáætlun

Stjórn Fjórðungssambands Vestfjarða hefur sent frá sér ályktun þar sem áherslum í samgönguáætlun er fagnað. Fram kemur að tillögurnar falli í helstu atriðum að stefnu sveitarfélaga á Vestfjörðum frá árinu 1997 og endurskoðun hennar frá árinu 2004, en hana má nálgast undir þessari slóð. Ísafjarðarbær og Bolungarvík hafa fagnað samgönguáætluninni, en viðbrögð Strandamanna hafa ekki komið fram. Ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is telur fullvíst að þau séu blendin, óánægja sé bæði með forgangsröð og framkvæmdahraða í vegagerð í héraðinu. Þannig er t.d. ekki áætlað að tengja saman þéttbýlin við Steingrímsfjörð með bundnu slitlagi fyrr en á tímabilinu 2011-2014, en alls staðar annars staðar á Vestfjörðum hafa nálægir þéttbýlisstaðir verið tengdir fyrir löngu.

Samþykkt stjórnar Fjórðungssambands Vestfjarða er svohljóðandi:

"Lagðar hafa verið fram á Alþingi tillögur um samgönguáætlun. Annarsvegar tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007-2010 og hinsvegar tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007-2018.

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga, fagnar þeim áherslum sem nú eru settar fram í tillögum að samgönguáætlun, varðandi vegagerð, flugvelli og hafnir. Tillögurnar falla í helstu atriðum að stefnu sveitarfélaga á Vestfjörðum eins og þær eru settar fram, í stefnumótun sveitarfélaga í samgöngumálum á Vestfjörðum frá árinu 1997 og endurskoðun hennar frá árinu 2004. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga leggur áherslu á, að Alþingi samþykki fjárveitingar sem tryggi framgang þessara samgönguverkefna og í þeirra tímaröð sem þau eru sett fram í samgönguáætlun. Með þeim hætti er einnig unnið samkvæmt áætlunum stjórnvalda svo sem Byggðaáætlun 2006-2009 og í Vaxtarsamningi Vestfjarða frá árinu 2005. Einnig ber að skoða þetta verkefni sem hluta af aðgerðum til að efla hagvöxt innan Vestfjarða, í ljósi neikvæðrar hagvaxtarþróunar síðustu ár.

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga lýsir að lokum ánægju sinni með að samgönguráðherra hafi komið á vettvang á Ísafirði, til að hefja kynningu á samgönguáætlun."