26/04/2024

Fjör á Furðuleikum

Heilmikið fjör var á Furðuleikum 2005 í Sævangi í gær, þótt veðrið hafi verið afbragðsvont sem hefur örugglega haft áhrif á mætinguna. 50-60 manns létu sjá sig og flestum keppnisgreinum sem halda átti úti var slegið á frest fram á sumarhátið. Þó létu þeir allra hörðustu sig hafa það að fara út til að læra og leika hinn æfaforna knattleik Hringlanda. Hins vegar var þeim mun meira um að vera inni og sannaðist að Strandamenn geta alveg eins verið furðulegir inni og úti. Öskurkeppni fór fram í anddyrinu og heilmikil Grettukeppni í kaffistofunni þar sem menn spiluðu líka og sungu. Þá var farið í heilmikinn Vísbendinga- eða ratleik inni á sögusýningunni og vakti hann mikla lukku.

Frá Öskurkeppninni – Ása Einarsdóttir sigraði með miklum yfirburðum í flokki fullorðinna, en Anna Lena Victorsdóttir sigraði í yngri flokknum – ljósm. Jón Jónsson

Kristján Sigurðsson tróð upp með Hólmavíkurlagið fyrir Hamingjudagana og virtust allmargir vera farnir að kunna viðlagið og jafnvel meira.

Menn gripu líka í hraðskák á Furðuleikunum þetta árið og sumir keyptu sér meira að segja ís í kuldanum, enda hlýtur það að vera í takt við daginn. Jón Örn hafði heppnina með sér í vísbendinga- og ratleiknum og lausnin hans við ratleiknum var dregin úr pottinum. Hann fékk kind í verðlaun.

Ásdís Jónsdóttir sigraði nokkuð örugglega í grettukeppninni í flokki fullorðinna, en þátttakendur þar voru átta. Fleiri kepptu í yngri flokknum, en þar urðu jöfn og efst Agnes Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Jakob Jónsson.