11/10/2024

Fjárveitingu í endurbætur á vegarslóða hafnað

Sveitarstjórn Strandabyggðar tók í vikunni fyrir erindi þar sem farið er fram á að Strandabyggð leggi fram 2 milljónir í endurbætur á vegaslóða fram Krossárdal í Bitrufirði vegna viðhalds sauðfjárveikivarnargirðingar úr Bitru í Gilsfjörð. Var vísað til samþykktar fyrrum hreppsnefndar Broddaneshrepps þar sem samþykkt var í byrjun árs 2006 að setja 2 milljónir í verkið og var það á fjárhagsáætlun. Sveitarstjórn Strandabyggðar hafnaði hins vegar erindinu samhljóða.

Þó er líklegt að einhverjar vegabætur verði því Vegagerðin hefur samþykkt að veita 1 milljón í verkefnið og er það fjárframlag ekki háð afgreiðslu Strandabyggðar, að sögn Ásdísar Leifsdóttur sveitarstjóra.