Fréttatilkynning
Fjarskiptasjóður og Síminn undirrituðu í dag samning um uppbyggingu háhraðanets um allt land. Með samningum er öllum landsmönnum tryggt háhraðanet fyrir árslok 2010. Um er að ræða tæplega 1800 heimili og verða þau fyrstu tengd innan mánaðar. Samningurinn er til fimm ára og tekur gildi 1. mars 2009. Samningsfjárhæðin er 606 milljónir króna og í samningnum felst að Fjarskiptasjóður veitir Símanum fjárstyrk til uppbyggingar á háhraðanetkerfi og háhraðanetþjónustu sem nær til staða sem ekki hafa aðgang að slíkri þjónustu. Þjónustan mun ná til heimila þar sem einn eða fleiri einstaklingar eru með lögheimili og hafa þar jafnframt heilsársbúsetu og einnig til húsnæðis þar sem lögaðili er með atvinnustarfsemi allt árið.
Vinna við uppbygginguna hefst strax og geta fyrstu heimilin nýtt sér netþjónustu Símans við lok marsmánar. Áætlað er að tengingu þessara tæplega 1800 staða ljúki við lok næsta árs. Þau heimili sem þiggja þjónustuna munu hafa kost á 2Mb/s tengingu en það er margfaldur hraði miðað við þann hraða sem nú er í boði á þessum stöðum. Samhliða þessari uppbyggingu mun Síminn byggja upp 3G farsímasamband á þessum svæðum.
Upphaflegt umfang verkefnisins var um 1.100 staðir. Umfangið hefur aukist um tæplega 700 staði þar sem markaðsáform nokkurra aðila gengu ekki eftir. Auglýst var eftir áformum markaðsaðila á þessum viðbótarstöðum sem reyndust engin vera. Samningurinn nær því í dag til allra staða á landinu sem, að uppfylltum búsetuskilyrðum, eiga ekki kost á háhraðanettengingu á markaðslegum forsendum.
Með þessum samningi hafa samgönguráðuneytið og fjarskiptasjóður komið í framkvæmd öllum helstu verkefnum gildandi fjarskiptaáætlunar 2005-2010 sem eru:
* Að allir landsmenn, sem þess óska, hafi aðgang að háhraðanettengingum.
* GSM-farsímaþjónusta verði aðgengileg á þjóðvegi 1, öðrum helstu stofnvegum og á helstu ferðamannastöðum.
* Að dreifing sjónvarpsdagskrár Ríkisútvarpsins, auk hljóðvarps Rásar 1 og Rásar 2, til sjómanna á miðum við landið og til strjálbýlli svæða verði stafræn um gervihnött.
Kristján Möller, samgönguráðherra, hafði þetta að segja við undirritunina: „ Það er mjög mikilvægt að geta nú staðfest síðasta áfangann í þeirri miklu uppbyggingu sem fram hefur farið á fjarskiptasviðinu síðustu árin í samræmi við fjarskiptaáætlun. Háhraðanetsamband er löngu orðinn eðlilegur og sjálfsagður þáttur í daglegu lífi okkar og því nauðsynlegt að allir landsmenn sitji við sama borð í þeim efnum. Nú verður gengið rösklega til verks og byrjað á Vestfjörðum, Norðausturlandi og Austfjörðum og í síðari áfanga verksins verður farið í aðra landshluta. Það er ánægjulegt að geta gengið frá þessum samningi og vil ég þakka öllum sem komið hafa við sögu.“
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, hafði þetta að segja: „Ég fagna því að þessi samningur skuli verða að veruleika núna þrátt fyrir erfiðleika í þjóðarbúinu. Háhraðatenging við internetið er orðinn hluti af þeim lífsgæðum sem íbúar í nútímaþjóðfélagi gera kröfu um. Með þessum samningi stígur fjarskiptasjóður stórt skref í að veita öllum landsmönnum þessi lífsgæði. Samhliða þessari uppbyggingu mun Síminn halda áfram þriðju kynslóðar uppbyggingu sinni. Verkefnið er umfangsmikið en hér er m.a. um að ræða um 100 senda sem settir verða upp á 18 mánuðum.“
Á heimasíðu fjarskiptasjóðs (www.fjarskiptasjóður.is) er listi yfir þá staði sem býðst háhraðanet samkvæmt samningnum.