28/03/2024

Fjarskiptasjóður og háhraðanetið í dreifbýlinu

Í fréttatilkynningu frá Fjarskiptasjóði er því haldið fram að ekki verði um tafir á heildarverkefninu við háhraðavæðingu fyrirtækja og íbúðarhúsa með heilsársbúsetu í sveitum, þótt útboðsfresti hafi verið seinkað fram í byrjun september frá lokum júlí. Fjallað var um þetta hér á vefnum fyrir nokkru og kom þá fram að listi yfir þá staði sem eiga að fá tengingu væri aðgengilegur á vef Ríkiskaupa og bent á að það vantar á listann staði í Strandabyggð. Þar er t.d. um að ræða einn Broddanesbæinn, Grund, alla bæina á Heydalsá, Sævang og staði í grennd við Hólmavík sem hafa nú eða eiga kost á lélegri ADSL tengingu sem er hægari en sá lágmarkshraði sem Kristján Möller samgönguráðherra kynnti í ræðu á Alþingi að miðað yrði við eða 2 mb. 

Fréttatilkynningin frá Fjarskiptasjóði er birt hér að neðan, en samkvæmt Fjarskiptaáætlun 2005-2010 átti að ljúka verkinu fyrir árslok 2007.

Fréttatilkynning frá Samgönguráðuneytinu fyrir hönd Fjarskiptasjóðs frá 18. júlí:

"Lengri frestur fyrir háhraðanetsútboð

Stjórn fjarskiptasjóðs hafa borist rökstuddar beiðnir um lengingu tilboðsfrests háhraðanetsútboðsins frá nokkrum mögulegum bjóðendum.

Útboðið lýtur að háhraðanetsþjónustu fyrir lögheimili með heilsársbúsetu og fyrirtæki með heilsársstarfsemi, sem hvorki eiga kost á slíkri þjónustu í dag né munu eiga kost á henni á markaðsforsendum. Útboðið, sem nær til allra sveitarfélaga landsins eða 1.200 bygginga alls, var auglýst 27. febrúar síðastliðinn og var tilboðsfrestur til 31. júlí.

Að höfðu samráði við Ríkiskaup, sem sjá um framkvæmd útboðsins fyrir hönd sjóðsins, telur stjórn fjarskiptasjóðs að lenging tilboðsfrests um 5 vikur eða til 4. september næstkomandi, komi til móts við aðstæður margra bjóðenda þannig að fleiri sjái sér fært að taka þátt í útboðinu. Stjórn fjarskiptasjóðs telur það skipta höfuðmáli með tilliti til umfangs verkefnisins, að endanlegur viðsemjandi hafi getað undirbúið tilboð sitt með viðunandi hætti. Þannig stuðli lengdur tilboðsfrestur að betri lausn, styttri verktíma og lægra tilboðsverði, auk þess sem vel unnin tilboð stytti þann tíma sem yfirferð tilboða og samningsgerð krefjast.

Stjórn sjóðsins leggur á það skýra áherslu að vinnu frá opnun tilboða að undirritun samnings verði flýtt eins og kostur er. Stjórn fjarskiptasjóðs telur því áhrif lengingar tilboðsfrests á verktímann verða óveruleg, ef þá nokkur, þegar upp er staðið, vegna þeirrar ákvörðunar sjóðsins að stytta yfirferðartíma til jafns við lengingu útboðstíma."