04/10/2024

Fjárlaganefnd vill styðja framhaldsskóladeild á Hólmavík

Í skýrslu sveitarstjóra á síðasta fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar þann 13. október var greint frá fundi með Fjárlaganefnd Alþingis. Í fundargerð segir að farið hafi verið með tvö erindi á fund nefndarinnar, styrkbeiðnir vegna lagfæringa á Félagsheimilinu á Hólmavík annars vegar og stofnun framhaldsskóladeildar á Hólmavík hins vegar. Í fundargerð Strandabyggðar segir að Fjárlaganefndin vilji aðstoða með stofnun framhaldsdeildar, sem hljóta að teljast stórtíðindi fyrir atvinnulíf og byggð á Ströndum, enda sé húsnæði þegar til staðar og því eingöngu um rekstrarkostnað að ræða en ekki stofnkostnað. Ekki kemur fram í fundargerðinni hverjir voru fulltrúar Strandabyggðar á fundinum, en hins vegar segir að 5 fjárlaganefndarmenn hafi verið viðstaddir fundinn.