26/12/2024

Ferðatorg í Smáralind framundan

Formaður ferðamálasamtakanna treður upp á Galdrahátíð 2001Í vor standa Ferðamálasamtök Vestfjarða fyrir Vestfjarðakynningu á Ferðatorgi í Smáralind. Það verður haldið helgina 1.-3. apríl næstkomandi og hvetur Arnar S. Jónsson formaður samtakana, ferðaþjónustuaðila á svæðinu sem vilja kynna sína þjónustu að undirbúa kynningarefni ef þeir vilja taka þátt. Þá er fyrirhugað að halda aðalfund Ferðamálasamtakanna á Ströndum á vordögum og málþing tengt ferðaþjónustunni í tengslum við hann.

Arnar vonast eftir góðri þátttöku Strandamanna bæði á Ferðatorginu og á aðalfundinum, en dagsetning á hann hefur enn ekki verið ákveðin. „Góðar hugmyndir eru líka ávallt vel þegnar," segir Arnar.

Þá eru Ferðamálasamtökin í samstarfi við Heim og Ferðamálasamtök Íslands að vinna að útgáfu á ímyndarbæklingi fyrir Vestfirði sem verður hluti af seríu um alla landshluta. Vestfirski bæklingurinn sem verður ríkulega myndskreyttur kemur út á ensku og frönsku til að byrja með. Eins hafa Ferðamálasamtökin nýlega styrkt gerð á sögukorti fyrir Vestfirði sem Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar vinnur að og einnig svæðisleiðsögumannanámskeið sem Fræðslumiðstöð Vestfjarða stendur fyrir í fjórðungnum.

Loks má nefna ráðstefnu á Ísafirði 15.-16. apríl um náttúru og ferðaþjónustu í víðu samhengi, en það er samstarfsverkefni Fjórðungssambands Vestfjarða, Ferðamálasamtakanna og Náttúrustofu Vestfjarða. Hornstrandir verða sérstaklega til umfjöllunar á þeirri samkomu.