19/07/2024

Aðalfundur Tafl- og bridgefélags

Frá bridgekvöldiTafl- og bridgefélag Hólmavíkur hélt í vikunni árlegan aðalfund sinn og var þar meðal annars farið yfir reikninga félagsins og þeir ræddir og samþykktir, lesin skýrsla stjórnar, kosin stjórn og fleira. Í stjórn voru kosnir: Maríus Kárason, Ingimundur Pálsson og Guðmundur V. Gústafsson. Benedikt Sigurðsson lét af störfum sem gjaldkeri félagsins en hann hafði gengt því starfi í áratugi. Var Benedikt þakkað afar vel unnið starf og tekið af honum loforð um aðstoð við nýjan gjaldkera, þar sem nákvæmni og útsjónarsemi þarf til að láta þær fáu krónur sem félagsskapur sem þessi hefur úr að spila duga til að ná endum saman.

Rætt var um að gaman væri ef hægt væri að auka áhuga fólks á bridge og þar með fjölga þátttakendum á spilakvöldum félagsins. Var ákveðið að bjóða upp á æfingar fyrir byrjendur og eða óvana til að sjá hvort ekki leynist talsverður áhugi meðal þeirra sem úti eru. Ef svo er þá gæti fólk notað svona æfingar sem stökkpall til að koma öflugt inn á spilakvöldin.

Þá var einnig rætt að frést hefur að íbúar í Árneshreppi hafa gert sér til gamans að koma saman og hafa saumaklúbb og spiladag og þar sé talsverður áhugi á spilinu. Var ákveðið að kanna hvort áhugi væri á að halda sameiginlegt bridgemót á öðrum hvorum staðnum.

Eftir fundinn var svo tekinn tuttugu spila tvímenningskeppni sem úr varð æsi spennandi leikur. Lauk með því að þrjú pör stóðu uppi efst og jöfn með 45 stig, það voru Már og Böðvar, Guðbrandur og Björn og svo Ingimundur og Karl.