23/12/2024

Ferðaþjónusta aukin á Borðeyri

Nýtt gistiheimili á StröndumÁ komandi sumri verður opnað nýtt gistiheimili á Borðeyri í gömlu verbúð sláturhússins sem stendur þar yst á eyrinni. Húsið hefur verið tekið til gagngerrar endurnýjunar undanfarna mánuði. Einnig stendur til að bæta tjaldsvæðið í þorpinu verulega og koma upp þjónustu í kringum það. Nýlega var þar opnuð kjörbúðin Lækjargarður sem keypti rekstur og eignir Kaupfélags Vestur-Húnvetninga á staðnum og eigendur þess stefna að því að opna veitingahús í rýminu með vorinu og taka þar vel á móti sívaxandi fjölda ferðamanna sem leggja leið sína niður á eyrina.

Ferðafólki sem á leið hjá Borðeyri gefst því kærkomið tækifæri á að teygja úr sér í notalegu og sögulegu umhverfi. 

Borðeyri var í tölu meiriháttar siglinga- og kauphafna allt frá fyrstu tíð og varð löggiltur verslunarstaður með þann 23. desember 1846. Föst verslun hófst þó ekki á Borðeyri fyrr en upp úr 1860 þegar Pétur Eggerz reisti þar fyrsta verslunarhúsið. Fleiri kaupmenn ráku síðar verslun á Borðeyri, meðal annars Richard P. Riis, en hann setti einnig á stofn útibú verslunarinnar á Hólmavík 1896 og á Hvammstanga tveimur árum síðar. 

Uppbygging Riis-hússins á Borðeyri hefur staðið yfir í nokkurn tíma, en það er eitt elsta uppistandandi hús á Ströndum og er glæsileg bygging og bíður þess að fá að þjóna nýju hlutverki, vonandi í náinni framtíð.