10/09/2024

Vegabætur eru fjárfesting í sparnaði

Steinþór BragasonAðsend grein: Steinþór Bragason
Í BB er að finna nokkrar greinar um vegamál á Vestfjörðum sem fjalla um samgöngubætur. Þetta mál tel ég vera þjóðþrifamál og legg hér með fram hugmyndir mínar að bættum vegamálum sem munu stytta vegalengdina frá Reykjavík vestur á firði um 243,5 km. Nái hugmyndir mínar fram að ganga fáum við veg sem hægt er að nota allt árið og komumst á tæpum 3,5 tímum frá Reykjavík til Ísafjarðar.

Í sem stystu máli felst hugmyndin í að bora jarðgöng frá Engidal í Skutulsfirði að Fjarðarhornsdal í Kollafirði sem eru 48 km löng göng. Þar að auki verða grafnir afleggjarar að Vatnsdal í Vatnsfirði, Miðdal í Ísafirði, Dýrafirði, Hestadal í Önundarfirði og Selárdal í Álftarfirði. Þar að auki vil ég tengja Norðurdal  í Trostansfirði við Þverdal í Vatnsfirði og Tungudal í Skutulsfirði við Syðridal í Bolungarvík. Heildarlengd allra gangnanna yrði um 79,7 km.

Kostir jarðgangnanna eru augljósir, það sem stendur í mönnum hinsvegar er kostnaðurinn sem mun nema tæpum 29 milljörðum króna. Þessum kostnaði má ná inn og rúmlega það með því að nýta tækifærin sem göngin gefa, m.a. með því að flytja jarðhita til húshitunar frá Reykjanesi í Ísafjarðardjúpi. Göngin munu spara niðurgreiðslu ríkisins til húshitunar og lækka húshitunarkostnað á Vestfjörðum allt að 83%. Ráðstöfunartekjur heimilanna mun aukast um allt að kr. 290.818, flutnings- og póstburðargjöld lækka, ferðaþjónusta á Vestfjörðum mun stóraukast og framkvæmdina má greiða niður á innan við 11 árum.

Þeir sem hafa áhuga á að lesa grein Steinþór Bragasonar í heild sinni geta smellt á þennan tengil (0,6 mb pdf-skjal).

Steinþór Bragason, Danmörku.