21/11/2024

Færð og flugeldaveður

Færð á vegumNú um kl. 9:00 er snjór á vegi á Ströndum frá Guðlaugsvík til Hólmavíkur og frá vegamótum í Staðardal um Drangsnes í Bjarnarfjörð samkvæmt vef Vegagerðarinnar, en hreinsun stendur yfir. Hálka er á vegum og skafrenningur á stöku stað. Bjarnarfjarðarháls er ófær. Á Ennisháls var kl. 8:40 allhvasst, vestsuðvestan 17 m/s. Á Steingrímsfjarðarheiði var þá suðvestan 14 m/s.

Veðurspáin fyrir Strandir næsta sólarhringinn gerir ráð fyrir suðvestan 8-15 m/s og stöku éljum. Lægir í kvöld. Frost 0-5 stig.

Veðurspá fyrir landið allt á morgun gamlársdag er svohljóðandi: Suðaustan 13-18 á morgun og snjókoma en síðar rigning sunnan- og vestanlands en mun hægari og úrkomulaust framan af degi norðan- og austanlands. Gengur í hvassa suðvestanátt vestanlands undir kvöld með éljum.

Veðurspá fyrir næstu daga gerir ráð fyrir framhaldi á umhleypingasömu veðri og éljagangi, en snjókomu og síðar slydda eða rigningu á mánudaginn 2. janúar.