07/10/2024

Fækkun opinberra starfa á Ströndum

SýsluskrifstofanÁ fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar síðastliðinn þriðjudag kom fram í skýrslu sveitarstjóra að leggja eigi niður embætti sýslumanns á Hólmavík og að einungis sé gert ráð fyrir einu stöðugildi á Hólmavík við sameiginlegt embætti á Vestfjörðum eftir þá breytingu. Tvö og hálft stöðugildi í tengslum við sýsluskrifstofuna og embættið á Ströndum leggist af og segir í fundargerðinni að það verði mikil blóðtaka fyrir sveitarfélagið. Virðist af þessari umræðu hjá sveitarstjórn Strandabyggðar sem vinna við sameiningu sýslumannsembætta sé komin vel af stað og framtíðarskipan mála orðin býsna mótuð.

Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi 1. október var gert ráð fyrir að fækka sýslumannsembættum úr 24 í 7 og fjárveitingar til embætta sameinaðar, en í fréttum var þá rætt um að starfstöðvar og útibú yrðu víðast áfram og fengju hugsanlega aukin verkefni á móti.

Samþykkti sveitarstjórn Strandabyggðar í framhaldi af þessum upplýsingum að brýn nauðsyn væri á að mótmæla fyrirhuguðum breytingum og samþykkti að senda ályktun þess efnis til dómsmálaráðherra og þingmanna Norðvesturkjördæmis.