Opið bréf til Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra á Ísafirði
Aðsend grein: Steinþór Bragason
Samgöngur eru mikilvægar fyrir þróun byggðar. Vegirnir eru lífæð okkar landsbúa og um þá fer bæði fólk og varningur. En það kostar að keyra vegina, ekki bara peninga og tíma, heldur leggjum við líf okkar og limi að veði í hvert skipti sem við vogum okkur út í umferðina. Persónulega fæ ég hland fyrir hjartað í hvert skipti sem ég kem að U-beygju í hálku og kolniðamyrkri. Djúpvegur er tengibraut við aðra landsfjórðunga fyrir flest okkar sem búum á norðanverðum Vestfjörðum. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar að vegaframkvæmdum sé þannig háttað að um vegina megi fara á sem skemmstum tíma og á sem öruggastan hátt allt árið um kring.
Fyrst skulum við skoða stöðuna í dag; það er um fjalllendi að fara, víða eru einbreiðir vegir og brýr, blindhæðir og krappar beygjur og akstur inn og út úr fjörðum auka akstursvegalengd milli tveggja staða miðað við beina línu. Frá Ísafirði að Brú í Hrútafirði eru 28 einbreiðar brýr, 28 hraðatakmarkanir þar sem okkur er sagt að hægja á okkur niður fyrir það sem annars telst eðlilegur hámarkshraði, niður í allt að 20 km/klst. Þar að auki eru á þessari leið 26 blindhæðir.
Mér þykir eðlilegt að setja sem markmið að leiðin milli Reykjavíkur og Ísafjarðar verði tvíbreið alla leið, fær allan ársins hring, vegirnir eins beinir og hægt er að koma við þannig að fjölda blindhæða og -beygja sé haldið í lágmarki, og jafnframt að leiðin sé eins stutt og framast er unnt. Á sama hátt þykir mér óeðlilegt að farið sé út í kostnaðarsamar framkvæmdir sem ekki fullnægja ofangreindum skilyrðum. Set ég markið of hátt? Hvers vegna eiga Vestfirðingar að sætta sig kræklóttar slysagildrur? Hvað er óeðlilegt við það að stefna að bestu mögulegu lausn? Það verður þá bara að hafa það ef fjármögnun og framkvæmdir taka meira en eitt kjörtímabil. Við erum að tala um mannvirki sem standa í árhundruði, ekki skammtímafjárfestingu. Þetta er jú lífæð okkar við aðra landshluta. Því ekki höfum við getað treyst á flugið og skipaflutningar hafa lagst af.
Með þessu bréfi vil ég koma með ábendingar vegna þess sem þú segir í bréfi þínu vegna skoðanna minna á framkvæmdum í Mjóafirði og fyrir Vatnsfjarðarnes. Fyrst vil ég samt deila með þér og öðrum lesendum minni framtíðarsýn.
Ísafjörður – Mjóifjörður
Kostir og gallar leiðanna sjá kort 1
Vegagerð með brú (yfir Mjóafjörð og inn Ísafjörðinn kort 1 A-G):
Kostir:
- Lækkum veginn úr 330m niður í 150m (u.þ.b 5 sinnum hærri en Miðnesheiði).
- Reykjanes kemst í alfaraleið.
- Vetrarleiðin styttist um 5,8 km
Gallar:
- Lengjum leiðina um 2,5 – 19,4 km eftir færð á vegum. (Líklega mesta veglenging á endurbótum á öldinni).
- Vegurinn bíður líklega ekki upp á hámarkshraða allt árið.
- Fáum líklega slysagildru niður af Skálavíkurheiðinni.
- Snjóþyngsta leiðin á þessum kafla verður enn til staðar (út Ísafjörðinn norðanverðan).
- Eftir 25 ára notkun verður þessi leið u.þ.b.1,4 – 2,0 milljörðum dýrari lausn (miðað við göng).
- Viðhald á brú vegna seltu og veðurskemmda.
- Þarf að keyra auka 9 km krók þegar snjóa fer (vetrarvegur í slæmum veðrum).
- Kemur í veg fyrir veiðar í Mjóafirði. Mjóifjörður hefur verið gjöfull í þorskseiðum seinustu ár fyrir áframeldi og gefið stóra og góða rækju.
- Eyðileggur Hrútey.
- Óþarfa umhverfislýti á grónum hlíðum.
- Reykjanes verður í alfaraleið og ekki lengur jafnt friðsamt.
- Lengir leiðina að Ferðaþjónustunni í Heydal.
- Vatnsfjarðarvegur verður enn við lýði, á árunum 2000-2004 varð 1/3 af öllum umferðaslysum á Djúpvegi á þessum kafli. (Hér er ég að tala um veginn út fyrir Vatnsfjarðarnesið sem verður vetrarvegur ef Skálavíkurheiðin teppist. Þá verður umferðinni hleypt á þennan mjóa veg í blindbyl. Hver verður slysahættan þá miðað við ekin kílómetrafjölda?) Það varð bílvelta þarna í byrjun þessarar mánaðar.
Vegagerð með göngum (inn Mjóafjörðinn og í gegnum Eyrarfjallið, kort 1 A-D).
Kostir:
- Öll veglagningin á láglendi sem eykur umferðaröryggi til muna.
- Grjótmulningurinn úr göngunum dugar langleiðina til að gera veg í Mjóafjarðargrynningunum innst í botninum. Höldum svo áfram með veginn út fyrir voginn í Djúpmannabúð, frá C-B á korti 1.
- Losnum við snjóflóðahættusvæðið í Botnshlíðinni sem eykur umferðaröryggi til muna.
- Styttir vegalengdina milli Ísafjarðar og Reykjavíkur um 11,4 km.
- Styttir vetrarleiðina um 25,2 km.
- Losnum við mikin snjómokstur (18,1-23,6 km).
- Stuðlar að lækkun flutningskostnaðar, um allt að 50 milljónir á ári.
- Gefur möguleika á enn frekari styttingu.
- Heldur ferðaþjónustunni í Heydal ennþá í alfaraleið.
- 13,9-19,4 (sumar/ófærðarvegur) km styttri leið en sú sem er fyrirhuguð út fyrir Reykjanes.
- Kærkomið skjól í göngum í slæmum veðrum, D-C kort 1 (hæð u.þ.b 12-30m).
Arðsemi
Ef við gefum okkur að arðsemin reiknist miðað við bílastyrk opinberra starfsmanna. Þá reiknast styrkurinn á 68 kr/km, 15% álag miða við séraðsæður og 45% álag miða við torfærugjald (líklega reiknað út frá meðal kostnaði RSS). Arðsemi af hverri sparaðri mínútu 19 kr. Ég myndi telja eðlilegt að notast við 15% álagið á þessum slæmu vegum og 45% álagið á vetraleiðinni sem bíður uppá einbreiða vegi og stöðuvötns eins og finnst í Reykjafirðinum í byrjun þessa mánaðar. Svo er það flutningskostnaðurinn sem er 25-28% meiri miðað við sömu vegalengd til annarra staða á landinu. Sem kannski er ekki óeðlilegt miðað við þær samgöngur sem Vestfirðingum er boðið upp á. Þær eru t.d einbreiðir firðir með þungatakmörkunum (Bitrufjörðurinn), tíðar lokanir vegna veðurs, og það sem er talið upp hér að ofan. Ég notast við 2×20 ft. gám listaverð 140.000 kr. Reykjavík-Ísafjörður og 20% nýtni á bílunum miða við 10 bíla á dag. Þá tek ég ekki með sementsbíla, fóðurbíla, mjólkurbíla, balabíla, snómokstur og samfélagsleg áhrif. En ég geri ráð fyrir 7% aukningu á hverju ári. 135 bílar á meðaltali á dag Ísafjörður-Reykjavík.
Arðsemin miða við 25 ára notkun gæti þá orðið u.þ.b 7 milljarðar af göngunum.
Ef ökumenn alls þessa flota væri á sömu launum og þú miðað við tölur frá BB þá væri arðsemin af þessari framkvæmd um 10 milljarðar.
Ef við settum svo brýrnar í sömu forsendur þá væri arðsemin af brúnum 0,2 milljarður og 1 milljarðar miðað við bæjarstjórataxtann, en mér reiknast til að þú sért með 87 kr á mínútu miðað við 8 stunda vinnu.
En þetta er ekki nóg, því í upphafi skal endinn skoða eins og þú nefnir með að brúa Hestfjörðinn.
Ísafjörður – Fjarðarholtsdalur – Bjarkalundur, sjá kort 2 og 3.
Með því að fara úr Ísafirðinum (kort 2,A) upp í Gervidal (kort 2,B) þaðan með u.þ.b. 9 km löng göng yfir í Fjarðarholtsdal í Kollafirði (kort 2,C) og tengjast svo Kollafirði og suður Barðstrendingum í botni Kollafjarðar sjá kort 2.D.
Þetta gæfi okkur 54 km styttingu við Rvk og 300 km styttingu á vetraleiðina á Barðaströnd.
Síðan lægju leiðir okkar Barðstrendinga saman suður til Reykjavíkur. Í gegnum Gufudalsháls, út Gufufjörð yfir Djúpafjörð og inn Þorskafjörð (sjá nánar á www.steinthor.com/Er þjóðvegur 60 á réttri leið). Með þessari framkvæmd sem myndi kosta u.þ.b. 8,2 miljarða, myndi leiðin frá norðanverðum Vestfjörðum styttast um u.þ.b 90 km og leiðin frá Suðurfjörðunum um 35 km.
Arðsemin af þessari leið miðað við sömu forsendur og að ofan (venjulegur Jón) gæfi okkur arðsemi upp á 46,4 milljarða. Og nú væri engin fjallvegur Ísafjörður-Reykjavík með því að fara um Heydal á Snæfellsnesi.
Það væru þá rétt tæpir 400 km til Ísafjarðar.
Nú skulum við snúa okkur norður aftur og skoða leiðina Mjóifjörður – Skutulsfjörður.
Mjóifjörður – Skötufjörður sjá kort 4, A-B.
Með því að fara undir Eyrarfjallið væri nú upplagt að fara inn Heydalinn og þaðan inn í Skötufjörðinn. Hér mundum við stytta leiðina um 37,1 km með kostnað upp á 3,85 milljarða. Arðsemi miðað við venjulegan Jón og 68 kr/km gæfi okkur 14 milljarða arðsemi.
Skötufjörður – Hestfjörður sjá kort 4, B-C.
Stytting 19,1 km. Arðsemi miðað við sömu forsendur og að ofan 7,4 milljarðar. Kostnaður 3,6 milljarðar.
Brú Hestfjörður, stytting 14,5 km með arðsemi miða við sömu forsendur 3,1 milljarðar
Hestfjörður – Álftafjörður sjá kort 4, C-D.
Stytting 23,5 km. Arðsemi miðað við sömu forsendur og að ofan 9,1 milljarðar. Kostnaður 3,3 milljarðar.
Súðavík – Ísafjörður, skjá kort 4, F-E.
Stytting 8,7 km. Arðsemi miðað við sömu forsendur og að ofan 6,9 milljarðar + mögulegur arður af heitu vatni ef nægt magn er til staðar fyrir Ísafjörð, Hnífsdal og Bolungarvík. Kostnaður 3,9 milljarðar.
Þá er leiðin frá Ísafjarðarkaupstað til Reykjavíkur orðin rétt rúmir 300 km.
Bolungarvík – Ísafjörður, sjá kort 5.
Stytting 1,7 – 5,8 km. Arðsemi miðað við sömu forsendur og að ofan 4,4 milljarðar + mögulegur arður af heitu vatni ef nægt magn er til staðar fyrir Ísafjörð, Hnífsdal og Súðavík. Kostnaður 3,6 miljarðar.
Rétt tæpir 320 km til Reykjavíkur.
Einnig losna íbúar þessara svæða við u.þ.b. 102 hættusvæði (sjá nánar á www.steinthor.com/ má bjóða þér í vestfirska rúllettu?) Varðandi umtal á mikilli slysatíðni get ég bent þér á það Halldór að frá þarseinustu aldamótum hafa u.þ.b. 16 mans farist á Óshlíðinni vegna sjóflóða, grjótskriðna og sviptivinda. Þetta hafa ekki verið slys af völdum framúraksturs, vímuefna eða ofsaaksturs. Óshlíðin er um 5,8 km löng, við skulum bera dauðsföll á km saman við Reykjanesbrautina sem er 47 km með 59 dauðsföll og Suðurlandsveginn sem er um 57 km langur og 54 dauðsföll. Lengdarmunurinn er 8,1 og 9,8 km og umferðarfjöldinn 15 og 11 sinnum meiri hlutfallslega á Óshlíðinni. Ef við berum þetta saman á þennan hátt þá erum við að tala um 1944 og 1730 dauðsföll miðað við sömu dauðsföll á km og raunin er á Óshlíðinni. Það eina sem getur bjargað Bolungarvík eru jarðgöng alla leið.
Er slys að skipta um hest í miðri á? Ég er að bjóða þér úthvíldan klár, og er þá ekki upplagt að skipta um hest áður en við látum vaða í fljótið?
Þú talar um frestun á framkvæmdum 5-20 ár. Ef við skoðum kort 1 þá er bara verið að bjóða út hlutann A-E. Hlutinn F langleiðina að D er eftir. Það er ekki komið leyfi til að fara yfir Hrúteyna. Er ekki mikilvægt að fá leyfi áður en við vöðum yfir land annarra.
Ef mig brestur ekki minni talaði virðulegur þingmaður Halldór Blöndal um það þegar hann var samgönguráðherra árið 1994 að það yrði komið bundið slitlag til Ísafjarðar árið 2000. Nú er að koma fjórða kjörtímabilið síðan þá og ekki er slitlagið enn tryggt.
Varðandi bundið slitlag til Reykjavíkur í lok ársins 2008. Þá skal ég klára þetta fyrir þig með göngum og veglagningu í botni Mjóafjarðar. Þá verður þú líka að bretta upp ermarnar og fá umboð Ríkisins. Verð verksins verður 3,4 miljarðar + helmingurinn af núverandi hönnunarkostnaði, þetta er jú næstum því helmingi styttri leið.
Stærsta málið er tíminn! Já tíminn skiptir miklu máli, sérstaklega þegar hver mínúta kostar 87 kr. Við erum að tala um u.þ.b 3,5 mínútu styttingu að sumarlagi með því að fara yfir Mjóafjörðinn. Því ekki að stefna á 2 tíma styttingu og bæta búsetuskilyrði til muna eins og ég hef verið að leggja dæmið hér að ofan. Við borgum jú öll skatta, síðast þegar ég vissu voru þeir til að tryggja jöfnuð og góð búsetuskilyrði fyrir alla landsmenn. Það hefur kannski breyst á þessu tíma sem ég hef búið erlendis?
Upphafið að þessum athugasemdum mínum var að ég fór að grennslast fyrir um rökstuðning af hverju brúarleiðin væri betri en gangnaleiðin og fékk engin svör. Hvort heiðarvegurinn biði upp á hámarkshraða allt árið og svarið sem ég fékk var: Þetta er fjallvegur.
Nú bið ég þig Halldór minn að upplýsa okkur um málið?
Einnig finnst mér kjörnir fulltrúar ekki verið að standa sig. Þess vegna fór ég af stað með þessar athugasemdir.
Ég vil einnig leiðrétta það að ég er ekki verkfræðingur. Ég er tæknifræðingur hálfnaður með lokaverkefnið í verkfræði. Og sérsvið mitt er vélar, orka, umhverfi og plast. Samgöngubætur er mitt áhugamál sem skiptir alla Íslendinga máli til betri lífskjara.
Eins og staðan er í dag sýnist mér að Ísafjarðarbær sé með buxurnar á hælunum hvað fjármál varðar, ef þessar tillögur gætu gengið væri mikill möguleiki að fjölga Vestfirðingum og þar með auka tekjur sveitafélagana.
Ég vil í lokin Halldór þakka þér fyrir að ljá máli á þessu máli og þar með rjúfa fréttabannið sem þú varst að reyna að koma á þessa umræðu. En það er annað sem ég hef áhyggur af, það er að það komu þrír menn að tali við mig og sögðu mér að draga í land í þessum málum, annars myndi fyrirtæki föður míns vera sniðgengið i öllum verkefnum frá ríki og bæ. Við skulum vona að við séum vaxnir upp úr slíkum barnaskap og einblínum á verkefnið.
Það eru engar athugasemdir svo slæmar að þær eigi ekki rétt á sér.
Fyrir þá sem eru sammála mér að jarðgöng séu góð fyrir byggðaþróun á þessu svæði farið endilega inn á www.steinthor.com eða komið við hjá mér skrifið ykkur á undirskriftallistann gegn fyrirhuguðum brúarframkvæmdum og með jarðgöngum.
Lifðu heill Halldór minn,
kveðja Steinþór Bragason.