11/09/2024

Átta Strandakonur ljúka Brautargengi

Í vikunni voru 20 athafnakonur útskrifaðar af Brautgengisnámskeiði Impru frá þremur stöðum á landsbyggðinni. Námskeiðið var haldið samtímis á Hólmavík, Vík í Mýrdal og Akureyri og fór kennslan að mestu fram í gegnum fjarfundabúnað í Grunnskólanum á Hólmavík. Af þessum 20 þátttakendum voru 8 úr Strandabyggð og Kaldrananeshreppi og fengu tvær þeirra sérstaka viðurkenningu við útskriftina, Kristín Sigurrós Einarsdóttir fyrir vel unna viðskiptaáætlun og Dagrún Magnúsdóttir fyrir áhugaverða viðskiptaáætlun. Námskeiðið var fyrir konur sem vilja hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd og stunda eigin atvinnurekstur.

Þetta er í sjöunda sinn sem Impra gengst fyrir námskeiði um stofnun og rekstur fyrirtækja sem sérstaklega er ætlað konum á landsbyggðinni. Alls hafa vel á annað hundrað konur víðs vegar um land lokið námskeiðinu frá upphafi. Viðskiptahugmyndir nemendanna sem nú útskrifast eru fjölbreyttar, meðal þeirra eru verkefni á sviði ferðaþjónustu, heilbrigðis- og umönnunarþjónustu, fjölmiðlunar, verslunar og framleiðslu af ýmsum toga.

Þeir nemendur sem hlutu sérstaka viðurkenningu fyrir vel unnar viðskiptaáætlanir voru: Bryndís Þórhallsdóttir í Eyjafjarðarsveit, Kristín Sigurrós Einarsdóttir á Hólmavík og Þuríður Vala Ólafsdóttir á Þorvaldseyri, Austur-Eyjafjöllum. Þá hlaut Dagrún Magnúsdóttir Laugarholti í Strandabyggð sérstaka viðurkenningu fyrir áhugaverða viðskiptahugmynd, Guðrún Sigurðardóttir frá Vík í Mýrdal hlaut sérstaka framfararviðurkenningu og Ragnhildur Ingólfsdóttir á Marki í Eyjafjarðarsveit fékk sérstaka hvatningarviðurkenningu.

Þær Strandakonur sem tóku þátt í námskeiðinu voru:

– Ásta Þórisdóttir og Lilja Sigrún Jónsdóttir með viðskiptahugmynd um minjagripaframleiðslu
– Dagrún Magnúsdóttir með hugmynd um hestaferðir
– Elísabet Pálsdóttir með ferðaþjónustu
– Kristín Sigurrós Einarsdóttir með útgáfu vikublaðs
– Lára Jónsdóttir með kertaframleiðslu
– Ragnheiður Gunnarsdóttir með handverksframleiðslu
– Sigríður Drífa Þórólfsdóttir með ullarvinnslu        

Lögð var áhersla á að þátttakendur kynntust grundvallaratriðum um stofnun fyrirtækja og þeim þáttum sem snúa að fyrirtækjarekstri s.s. stefnumótun, markaðsmálum og fjármálum. Í lok verkefnisins höfðu þátttakendur skrifað viðskiptaáætlun og kynnst hversu áætlanagerð er mikilvæg við undirbúning að stofnun og rekstri fyrirtækja. Námskeiðið er samtals 70 klst og er eingöngu fyrir konur en það hefur sýnt sig að mikil þörf er á slíkum vettvangi fyrir konur sem eru að stíga sín fyrstu skref í viðskiptalífinu. Avinnuþróunarfélag Vestfjarða  kom myndarlega að námskeiðinu og mun einnig í framhaldinu veita margháttar ráðgjöf.  Þetta er í þriðja sinn sem sem ATVEST í samstarfi við Impru hefur umsjón með framkvæmd slíks námskeið á Vestfjörðum, en í hin tvö skiptin voru þau haldin á Ísafirði.

Gerð hefur verið könnun á árangri Brautargengisnámskeiða og það sem vekur mesta athygli er fjöldi Brautargengisfyrirtækja í rekstri og sá fjöldi stöðugilda sem skapaður hefur verið í þessum verkefnum. Um helmingur kvenna sem tekið hefur þátt í námskeiðinu frá upphafi er nú með fyrirtæki í rekstri. Flest eru þau með 1-2 starfsmenn en meðalfjöldi starfsmanna er 9.