12/09/2024

Er hvalur á firðinum?

Hér á strandir.saudfjarsetur.is er kominn tengill yfir á tilkynningasíðu um hvalakomur á Steingrímsfjörð sem er að finna hér á vinstri hönd. Í tengslum við fornleifauppgröft á hvalveiðistöð baskneskra hvalveiðimanna í Hveravík við Steingrímsfjörð er stefnt að því að Steingrímsfjörður verði Mekka hvalaskoðunar úr landi á Íslandi. Til þess að svo megi vera þarf að skrásetja hvalakomur í Steingrímsfjörð og reyna að sjá nokkuð nákvæmlega hvar og hvenær árs er helst von til þess að sjá hvali á firðinum. Haldin verður skrá um hvalakomur og reynt að átta sig á því á hvaða árstíma er helst von til að berja þessi risaspendýr augum. Sjómenn eru sérstaklega beðnir um að hafa augun hjá sér og tilkynna um hvalaferðir á firðinum.

Vonir standa til að í framtíðinni verði hægt að markaðssetja Steingrímsfjörð sem ákjósanlegan stað til hvalaskoðunar og náttúruskoðunar af landi og stefnt er að því að setja upp öfluga sjónauka á nokkrum vel völdum stöðum sitthvorum megin við fjörðinn.  Vonast er til þess að íbúar við Steingrímsfjörð taki virkan þátt í þessu verkefni og tilkynni hvalakomur í gegnum tilkynningarformið.

Gert er ráð fyrir því að þessar rannsóknir standi yfir í þrjú til fjögur ár og allar ljósmyndir af hvölum í Steingrímsfirði eru vel þegnar.

Hér er einnig að finna tengil inn á tilkynningasíðuna.