22/07/2024

Enn um kynjahlutfallið

Fuglahræðan góðaFólksfækkun á Ströndum og kynjahlutfallið hefur verið nokkuð til umræðu í landsmiðlum í dag, eftir að Hagstofan birti í gær tölur um fólksfækkun í einstökum sveitarfélögum. Þetta er eðlilegt, enda er fækkunin hér síðasta áratuginn óþægilega mikil og með því allra mesta á landinu.

Fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur lykilmenn á svæðinu, sem væntanlega sitja í sveitarstjórnunum, til að mæta þessum tíðindum af einurð og festu. Til að hægt sé að taka á þessum málum og snúa vörn í sókn, þurfa menn að horfast óhræddir í augu við þessar tölur og viðurkenna vandann. Það dugir skammt að stinga hausnum í sandinn.

Töluverður munur er á kynjahlutfallinu í einstökum sveitarfélögum á Ströndum, eins og fram kemur hér á eftir. Kaldrananeshreppur hefur þannig eina konu fram yfir karlana, á meðan konur eru aðeins 37,7% af íbúum í Broddaneshreppi, 42,1% af íbúum Árneshrepps og 44,6% af íbúum í Hólmavíkurhreppi.

   
Árneshreppur 33 karlar, 24 konur
Kaldrananeshreppur 58 karlar, 59 konur
Bæjarhreppur 53 karlar, 50 konur
Broddaneshreppur 33 karlar, 20 konur
Hólmavíkurhreppur 256 karlar, 206 konur.