11/09/2024

Menningarhátíð ungs fólks á Hólmavík

Lista- og menningarhátíð sem undirbúin er og skipulögð af  unglingum í félagsmiðstöðinni Ozon er orðinn að árlegum viðburði í menningarlífi á Ströndum og er ein stærsta fjáröflun Ozon ár hvert. Að þessu sinni verður hátíðin haldin í félagsheimilinu á Hólmavík 25. febrúar n.k. klukkan 20:00. Einar Már Guðmundsson rithöfundur verður aðalgestur kvöldsins, les úr verkum sínum og spjallar við samkomugesti. Aðrir sem koma fram eru m.a. Stefanía Sigurgeirsdóttir píanóleikari og Þorbjörg Matthíasdóttir þverflautuleikari, félagar úr Leikfélagi Hólmavíkur, uppistand með Júlla hinum eina sanna, fjölbreytt atriði frá unglingunum í Ozon, tónlistarmennirnir Hjörtur og Rósi Núma ásamt söngvaranum Lýð Jónssyni.

Unglingahljómsveitirnar Dansband Victors og Micado, Söngvaskáldið Kristján Sigurðsson og Lára G. Agnarsdóttir söngkona, sönghópurinn Bjútí and ðe bíst, Stefán Jónsson píanóleikari, Bjarni Ómar & beibís, kvikmyndagerðarmenn úr Stuntman hópnum sýna brot af því besta, siguratriðið í Vestfjarðariðli söngvakeppni Samfés o.fl.

Miðaverð er  krónur 1500 fyrir fullorðna og 500 fyrir 6-14 ára, frítt fyrir börn yngri en fimm ára. Veitingar, kaffi, djús og bakkelsi er innifalið í aðgangseyri.

Nánari upplýsingar um Lista og menningarhátíð veitir forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Ozon Bjarni Ómar Haraldsson í síma 892-4666 eða 451-3129, póstfang tonskolinn@holmavik.is.