23/12/2024

Endurmeta þarf þorskstofninn – auka friðun

Aðsend grein: Kristinn H. Gunnarsson
Ýmsar vísbendingar um þorskstofninn eru jákvæðar og engin ástæða til þess að óttast stórvægilegar breytingar til hins verra á næstu árum, jafnvel við óbreytta aflareglu. Það sést skýrast þegar skoðaðar eru tölur úr skýrslu ICES um íslenska þorskstofninn. Samkvæmt þeirra mati myndi hrygningarstofninn minnka óverulega eða um 3% ef á næsta fiskveiðiári gilti áfram sama aflaregla og leyfð veiði á 178 þúsund tonn. Bæði ICES og Hafró gera tillögu um að lækka veiðihlutfallið í 20%, og leggur ICES þá til að heimilað verði að veiða 152 þúsund tonn. Þá er talið að hrygningarstofninn vaxi um 5%. Þetta er vísindalegt mat þar sem efri mörkin eru við 180 þúsund tonna veiði og neðri mörkin við 150 þúsund tonn.

Stofnstærðarmat vísindamannanna virðist byggjast fyrst og fremst á togararallinu sem fór fram í mars síðastliðinn. Framkvæmd þess er mjög umdeild og bendi ég á greinar Guðjóns Arnars Kristjánssonar, alþm. um það, sem birtust í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Í skýrslu ICES kemur fram að upplýsingar sem aflað er með haustralli ár hvert sýni mun stærri þorskstofn en mat sem byggt  er á vorrallinu. Að auki benda upplýsingar bæði úr netaralli og rækjuralli til þess að þorskstofninn sé að eflast.

Eitt atriði enn er vert að hafa í huga við mat á þorskstofninum. Stærð hans er reiknuð út frá meðalþyngd í stofnmælingunni í mars, og tölur um stærð á hrygningarstofni og viðmiðunarstofni sem verið hafa í umræðunni eru miðaðar við þá mælingu. Hins vegar er vitað og kemur fram í skýrslu Hafró að meðalþyngd í afla fiskiskipa er að jafnaði hærri en í vorrallinu. Ef þorskstofninn er metinn út frá þeim meðalþyngdum fæst stærri stofn. Sem dæmi um mismuninn þá er viðmiðunarstofninn talinn vera á þessu ári 541 þúsund tonn eða 675 þúsund tonn eftir því hvort miðað er við meðalþynd í afla eða meðalþyngd í togararallinu í mars.  Það munar um 25%. Annað dæmi er að hrygningarstofninn er talinn vera um 180 þúsund tonn í skýrslu Hafró en 241 þúsund tonn í skýrslu ICES. Þar munar 34% á tölunum.

Það sem á að gera nú áður en nokkur ákvörðun er tekin um samdrátt í veiðum er að fara yfir allar upplýsingar um þorskstofninn og endurmeta stærð hans að nýju.Það á að endurbæta togararallið í samræmi við ábendingar skipstjórnarmanna og líta einnig á haustrallið, neta- og rækjurallið og afladagbækur og finna skýringar á því hvers vegna haustrallið gefur stærri þorskstofn. Þá ætti að fást áreiðanlegra og óumdeildara mat á stofnstærðinni en nú er byggt á.

Til þess að breyta aldurssamsetningunni á hrygningarstofninum er fljótvirkast að draga úr veiðum á hrygningarfiski. Það á að gera með því að friða hann um lengri tíma en nú er og jafnvel á stærri svæðum. En það verður líka að draga sérstaklega úr veiðiálagi á stóra fiskinn og því verður að ráðast til atlögu við kvótakerfið sjálft. Framsalið með háu leiguverði beinir veiðunum í stærsta fiskinn og það er einn gallinn sem kvótakerfinu  fylgir.

Í skýrslu ICES kemur fram að þyngd þorsksins er háð stærð loðnustofnsins og að minnkandi fallþungi þorsksins sé líklega tengdur því að minna magn af loðnu hefur verið á útbreiðslusvæði þorksins.  Við mat á þorskstofninum næstu árum er gert ráð fyrir litlum loðnustofni. Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að lækkandi meðalþyngd þorsksins er helsta áhyggjuefnið. Um 40% af minnkun viðmiðunarstofnsins síðusta árs er vegna þess að fiskurinn er léttari  en áður.  Ef meira framboð verður af loðnu fyrir þorskinn  verður hann fljótur að þyngjast og þá breytist hratt matið á stærð þorskstofnsins. Eðlilegast er að ráðherra taki ákvarðanir um loðnustofninn sem fyrst og fremst eru til þess að efla þorskstofninn. Ef það á að byggja þorskstofninn upp verður hann að fá fæðu og þá gengur ekki að veiða loðnuna í þeim mæli sem verið hefur.

Jón Kristjánsson, fiskifræðingur hefur verið óþreytandi að benda á að samhengi hljóti að vera á milli fæðuframboðs og viðgangs fiskistofna og að ekki sé hægt að byggja upp fiskistofna eins og innistæðu á bankabók. Satt að segja eru þær kenningar auðskildari og fyrir leikmann líklegri til að vera nær lagi en kenningar Hafró. Of oft hefur Hafrannsóknarstofnun haft rangt fyrir sér eða ekki séð fyrir breytingar sem urðu á einstökum fiskistofnum til þess að hægt sé að líta á tillögur stofnunarinnar sem bestu mögulegu vitneskju. Sjávarútvegsráðherrann sjálfur undirstrikaði þetta rækilega á dögunum þegar hann hunsaði ráðgjöf Hafró um hámarksveiðar á næsta fiskveiðiári í 12 fisktegundum af 17 og jók við í öllum 12 tilvikunum. Nauðsynlegt er að framvegis komi fleiri að ráðgjöf og tillögugerð um hámarksafla, bæði vísindamenn og fiskimenn. Þegar fyrir liggur að þekkingin er takmörkuð og slíkum annmörkum háð að bæði forsendur og ályktanir eru mjög matskenndar og óljósar verða stjórnmálamenn að axla sína ábyrgð með því að taka ákvörðun að undangengnu samráði við alla sem þekkingu hafa.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður
www.kristinn.is