22/12/2024

Ekkert fjármagn til vegarslóða í Krossárdal

Á sveitarstjórnarfundi í Strandabyggð í gær var tekið fyrir erindi frá landeigendum í Krossárdal. Í því voru tíunduð skilyrði fyrir lagningu vegslóða um dalinn vegna viðhalds á sauðfjárveikivarnargirðingu. Í skilyrðunum felst m.a. að landeigendur muni sjálfir sjá um verkið og slóðinn muni ekki ná lengra en að Skáneyjargili. Landeigendur álíta að fjármagn sem Vegagerðin muni veita í verkið, 1 milljón, dugi fyrir kostnaði. Sveitarstjórn samþykkti þetta erindi og þar með skilyrðin. Hún hafði áður ákveðið á fundi þann 23. janúar sl. að veita 2 milljónir til verksins með fyrirvara um samþykki landeigenda. Að sögn Ásdísar Leifsdóttur sveitarstjóra mun þessi fyrri ákvörðun sveitarstjórnar nú falla úr gildi, enda hafi hún byggst á því að samþykki landeigenda fengist.

Íbúar í fyrrum Broddaneshreppi ásamt landbúnaðarnefnd Strandabyggðar lögðu hart að sveitarstjórn að veita fjármagn til endurbóta á veginum. Íbúarnir sendu undirskriftalista til sveitarstjórnar vegna málsins og landbúnaðarnefndin lagði fram harðorða greinargerð þar sem sagt var að 2 milljónir króna hefðu verið eyrnamerktar til viðhalds á vegaslóðanum af sveitarstjórn Broddaneshrepps. Því bæri sveitarstjórn Strandabyggðar að veita styrkinn. Nú er ljóst að ekkert verður af styrkveitingunni.

Velta má upp þeirri spurningu hvort það sé yfirleitt í verkahring sveitarfélaga að sjá um og fjármagna verkefni sem snúast um eða tengjast viðhaldi á sauðfjárveikivarnargirðingum. Varnargirðingin sem liggur milli Bitrufjarðar og Gilsfjarðar er skilgreind sem aðalvarnarlína, en í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim frá 1993 kemur m.a. fram í 19. grein að: 

Stofnkostnaður og viðhald aðalvarnarlína greiðist úr ríkissjóði. Ríkissjóður leggur til efni í aukavarnarlínur, en uppsetning, rekstur og viðhald þeirra greiðist af viðkomandi sveitarsjóðum. 

Hægt er að skoða nýjustu fundargerð hjá sveitarstjórn Strandabyggðar hér á vefnum.