14/10/2024

Digital Ísland væntanlegt

Digital Ísland er á leið á Strandir, nánar tiltekið á þá staði við Steingrímsfjörð þar sem Stöð 2 næst nú þegar. Þjónustufólk frá fyrirtækinu Mömmu er væntanlegt á staðinn á föstudaginn og byrjar þá að ganga í hús og bjóða upp á nýjan afruglara fyrir útsendingar Digital Ísland. Þessi útsending kemur í stað þeirrar sem nú er í gangi og gamlir afruglar duga þá ekki lengur. Eins næst þá ekki fréttatíminn lengur óruglaður nema menn hafi slíkan búnað. Sjónvarpsstöðvar sem nást í Digital Ísland í stafrænum gæðum eru RÚV, Stöð 2 og Stöð 2 bíó, Sirkus, Sýn, Sýn extra og Skjár 1. Líklegt er að SkyNews náist líka eins og fyrir vestan. Útvarpsstöðvar sem nást í gegnum sjónvarpið eru Bylgjan, FM957, Létt Bylgjan og X-ið.

Einhvern tíma eftir að búið er að dreifa nýjum afruglurum, líklega í næstu viku, verður útsendingunni síðan skipt yfir í nýja kerfið og þá tekur fólk gamla afruglarann úr sambandi og tekur þann nýja í notkun. Ef fólk er ekki heima þegar þjónustumenn banka upp á, verður hægt að nálgast nýjan afruglara hjá Sigurði Marínó á Hólmavík sem er umboðsmaður 365 miðla.

Fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur þá sem geta nýtt sér þessa þjónustu til að fagna þegar umbæturnar eru orðnar að veruleika.

 Vefur fyrirtækisins er á slóðinni www.digitalisland.is.