13/11/2024

Ekkert bólar á útboðum

Ekkert bólar enn á útboðum á vegaframkvæmdum sem kynnt hafði verið að farið yrði í á þessu ári í Hrútafjarðarbotni og í Bitrufirði. Fyrirhugað hefur verið síðan á síðasta ári að bjóða út og hefja vinnu við hringveginn um Hrútafjarðarbotn þar sem legu vegarins verður breytt, þannig að leiðin milli Stranda og Húnvetninga styttist um nokkra kílómetra. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar í vor átti einnig að fara í breikkun einbreiða malbiksins í Bitrufirði nú í haust, en ekkert bólar á útboði á því verkefni. Sögusagnir eru nú um að vegarspottinn verði ekki lagfærður allur í einu og einnig um niðurskurð á viðhaldsfé á svæðinu.