Ekkert hefur enn spurst til úrskurðar umhverfisráðherra vegna kæru á niðurstöðu Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegar um Arnkötludal og Gautsdal. Í fréttum frá því í desember var haft eftir ráðuneytismönnum að það gæti dregist fram í lok janúar að ráðherra úrskurðaði um málið, en nú er farið að síga á seinni hluta febrúar. Um er að ræða kæru frá 14. október sem Vegagerðin beindi til ráðuneytisins vegna niðurstöðu Skipulagsstofnunar um umhverfismatið og þeirra skilmála sem stofnunin setti vegna framkvæmdanna. Þeir virtust geta tafið framkvæmdir. Afgreiðsla kærunnar hefur þannig dregist verulega umfram þann frest sem ráðuneytið hefur, en það átti að skila niðurstöðu í síðasta lagi þann 9. desember 2005 hefði það farið að lögum.