22/12/2024

Efnistaka á Ennishálsi

Byrjað var að ýta til efni í nýrri námu Vegagerðarinnar á Ennishálsi, milli Bitru og Kollafjarðar, þegar fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is átti leið um í gær. Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar á þriðjudaginn var samþykkt fundargerð frá Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefnd sveitarfélagsins, en í henni kemur fram að Vegagerðin hafði sótt um leyfi til efnistöku í Ennishálsi vegna framkvæmda þar og að landeigandi hefur þegar veitt sitt samþykki. Samþykkt var að verða við erindinu með fyrirvara um að gengið verði frá námunni samkvæmt stöðlum Umhverfisstofnunar. Ekki kemur fram í fundargerðinni hvort fyrir liggja umsagnir Umhverfisstofnunar og Náttúrverndarnefndar Strandasýslu eins og skylt er lögum samkvæmt.

Efnisnáma á Ennishálsi, en slíkar námur eru orðnar býsna víða meðfram vegi norður Strandir – ljósm. Jón Jónsson