22/11/2024

Dreifnámið á Hólmavík komið af stað

645-dreifnam-hurra
Mikilvægur áfangi í skólamálum á Ströndum var stiginn í dag, þegar kennsla hófst í framhaldsskóladeild á Hólmavík. Kennt er frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, en skólastofa nemendanna í dreifnáminu á Hólmavík er í Þróunarsetrinu við Höfðagötu. Hægt verður að taka fyrstu tvö árin í framhaldsskóla með þessum hætti. Nemendur komu í dag til fundar með Hrafnhildi Guðbjörnsdóttur sem skólinn á Sauðárkróki hefur nýverið ráðið til að hafa umsjón með náminu. Krakkarnir skoðuðu aðstöðuna og hittu aðra sem starfa á skrifstofu Strandabyggðar og í Þróunarsetrinu, en síðan héldu þeir saman af stað í námslotu á Sauðárkrók þar sem þeir verða við nám þessa vikuna.

Framhaldsdeildin eða dreifnámið á Hólmavík verður opnuð með formlegum hætti í september, þegar nemendur hafa komið sér þægilega fyrir, en þá verður opið hús í Þróunarsetrinu og kynning fyrir áhugasama.

Það er mikið tilhlökkunarefni að hefja þennan nýja áfanga í skólasögu svæðisins, en nú gefst ungu fólki á Ströndum í fyrsta sinn tækifæri til að hefja framhaldsnám í heimabyggð. Það er tilhlökkunarefni að þessi aldurshópur setji mark sitt á menningar- og mannlíf að vetrarlagi.