22/12/2024

Drangsnes v Tungusveit

Það er óhætt að segja að nú færist líf, fjör og læti í tippleik strandir.saudfjarsetur.is, en Björn Hjálmarsson sem laut í lægra haldi fyrir Jóni Jónssyni á Kirkjubóli um síðustu helgi skoraði á Halldór Loga Friðgeirsson að reyna sig í leiknum. Halldór Logi, sem er fyrsti fulltrúi Drangsnesinga í leiknum, tók áskoruninni eins og sannur sægarpur og var ekki lengi að berja saman spá fyrir helgina. Hann er greinilega staðráðinn í að sigra hinn taplausa Jón, en í bréfinu sem stjórnanda leiksins barst frá Halldóri stóð m.a.: “Hér kemur sigurseðill vikunnar. Hlakka til að tippa að viku liðinni.” Jón treystir hins vegar á að Halldór fari flatt á “einhverjum meinlokum og grillum sem jafnan fylgja því að halda með Liverpool”. Spár og umsagnir kappanna má sjá hér neðar:

1. Fulham – Man. Utd.
 
Jón: Fulham er ekki beinlínis í banastuði þessa dagana og United hefur líka staðið í ströngu, tapaði til dæmis fyrir Blackburn á heimavelli um síðustu helgi. Sir Ferguson komst þó aftur á beinu brautina eftir að kollegi hans Arsene Wenger veitti honum óvæntan andlegan stuðning í vikunni og liðið vann í meistaradeildinni. Ættu að sigra aftur núna. Tákn: 2.
 
Halldór: United mæta ákveðnir til leiks eftir tap síðustu helgar og vinna sannfærandi. Tákn: 2.
 
+++
 
2. Charlton – Tottenham
 
Jón: Tottenham hefur staðið sig ljómandi vel þetta árið og eiga skilið hvert stig sem þeir hafa fengið á meðan Rúrik Gíslason og félagar í Charlton hafa fengið fullt af óverðskulduðum stigum. Það er spurning með jafntefli eða útisigur í þessum leik, glópalánið hlýtur fljótlega að hætta að leika við Charlton og þá hrapa þeir niður í 15.-17. sæti þar sem þeir eiga heima. Tákn: X.
 
Halldór: Tottenham nær að merja jafntefli við Hemma og félaga. Tákn: X.
 
+++
 
3. Portsmouth – Newcastle
 
Jón: Þetta hefði verið erfiður leikur að spá í fyrir mánuði, en núna hefur Newcastle fengið meistara Owen sem kom færandi hendi til liðsins – bæði með leikgleði og sjálfstraust fyrir liðið allt. Hann og Shearer skora báðir. Tákn: 2.
 
Halldór: Nokkuð auðveldur sigur hjá Newcastle, Owen kominn á skotskóna og klárar þetta fyrir þá. Tákn: 2.
 
+++
 
4. Blackburn – WBA
 
Jón: Heimasigur, engin spurning. Blackburn hlýtur að vera í góðum gír eftir sigurinn á United. Tákn: 1.
 
Halldór: Blackburn fylgir eftir góðum sigri á síðustu helgi og sigrar nokkuð örugglega. Tákn: 1.
       
+++
 
5. Sunderland – West Ham
 
Jón: Sunderland hefur verið í tómu basli þetta árið, þrátt fyrir sigur á Middlesboro um síðustu helgi, en West Ham gengið allt í haginn. Sunderland vinnur ekki tvær helgar í röð. Tákn: 2.
 
Halldór: Gæti orðið markaleikur en held samt að jafntefli verði niðurstaðan. Tákn: X.
 
+++
 
6. Reading – Sheff. Utd.
 
Jón: Sheffield er búið að ná of miklu forskoti í 2. deildinni (já ég veit að hún er kölluð eitthvað annað) fyrir minn smekk. Reading vinnur þennan leik 1-0. Þeir eru í góðu formi og láta ekki taka sig í bakaríinu eins og Watford þegar þeir glutruðu unnum leik á móti Sheffield niður í tap. Tákn: 1.
 
Halldór: Sheffield vinnur góðan útisigur. Tákn: 2.
 
+++
 
7. Watford – Leeds
 
Jón: Þetta er nokkuð jafn leikur hjá jöfnum liðum. Ég veðja á heimavöllinn, þó hann hafi nú ekki skipt miklu í undanförnum umferðum. Spái því líka að Elton John syngji í leikhléinu og leikurinn tefjist nokkuð af þeim völdum. Tákn: 1.
 
Halldór: Leeds fylgir eftir góðum leik í vikunni og vinnur útisigur. Tákn: 2.
 
+++
 
8. Cardiff – Luton
 
Jón: Æææ, ég veit ekkert um þessi lið. Luton er ofar, en báðum hefur gengið ágætlega. Heimavöllurinn blívur. Tákn: 1.
 
Halldór: Jafntefli. Tákn: X.
 
+++
 
9. Preston – Southampton
 
Jón: Trúi því nú ekki að þessi lið séu í sömu deildinni. Ætli Halldór klikki ekki á þessum leik. Tákn: 2.
 
Halldór: Dýrlingarnir sækja góð þrjú stig. Tákn: 2.

+++

10. Plymouth – Stoke 
 
Jón: Plymouth er í tómu tjóni, en Stoke er ofarlega. Úrslitin verða ekki eftir því. Stoke tapaði illa í vikunni og þeir verða ekki búnir að ná áttum. Tákn: X.
 
Halldór: Bræðraslagur og Þórður hefur betur. Tákn: 2.
 
+++
 
11. Derby – Leicester
 
Jón: Mikil meiðsli plaga Derby menn, en óvíst að það dugi Leicester. Reikna með að leikurinn fari 0-0 og verði hrútleiðinlegur. Í mesta lagi nær annað hvort liðið að skora svo sem eitt sjálfsmark. Tákn: 1.
 
Halldór: Treysti á Derby til heiðurs Inga á Nesi. Tákn: 1.
 
+++
 
12. Sheff. Wed. – Coventry
 
Jón: Þetta er mikill botnslagur í 2. deildinni, annað liðið er neðst og hitt litlu ofar. Coventry er óútreiknanlegt og nær að krækja í stig í stórbrotnum markaleik. Tákn: X.
 
Halldór: Jafntefli. Sorrý Addi minn ;D. Tákn: X.
 
+++
 
13. Brighton – Norwich
 
Jón: Brighton hefur gengið illa að vinna sigra í haust, en gert 7 jafntefli. Þetta breytist um helgina og stórsigur þeirra á Norwich markar upphafið á mikilli sigurgöngu. Tákn: 1.
 
Halldór: Góður heimasigur hjá Brighton. Tákn: 1.
 
+++
 
Jón: Jæja, þetta gengur nú ágætlega hjá mér, vinn hvern leikinn af öðrum með örfáa rétta. Ég er samt ekki viss um að mér dugi 5 réttir til að vinna Halldór Loga. Jú annars, ætli hann fari ekki flatt á einhverjum meinlokum og grillum sem jafnan fylgja því að halda með Liverpool í enska boltanum. Það ætti að duga.
 
Halldór: Þetta gengur nú ekki að láta karlinn einoka leikinn á sinni eigin síðu. Þannig að nú mætum við sterkir inn af nesinu. Annars er leikur helgarinnar á sunnudaginn. Að gamni læt ég fylgja með spá: Liverpool – Chelsea – 1. Verðum við fyrsta liðið til að leggja þá.