23/12/2024

Dósagám stolið á Drangsnesi

Í liðinni viku var tíðindalítið í umdæmi lögreglu á Vestfjörðum. Síðastliðinn mánudag var tilkynnt um þjófnað á dósasöfnunargám í eigu björgunarsveitarinnar á Drangsnesi. Hann var staðsettur við heitu pottana og uppgötvaðist þjófnaðurinn á sunnudag. Ef einhver hefur upplýsingar sem varpað gætu ljósi á málið þá er þeim bent á að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum, upplýsingasími 450-3730. Eitt minniháttar umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglu, það óhapp var á Ísafirði. Skemmtanahald fór vel fram og án teljandi afskipta lögreglu.

Fjórir voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í vikunni, einn í Vestfjarðargögnunum og annar nálægt Hólmavík. Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir á Skutulsfjarðarbraut þar sem þeir voru greinilega í kappakstri. Mældust þeir á 128 km/klst, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 60 km/klst. Þeir mega búast við ökuleyfissviptingu og sekt.

Í vikunni hefur lögregla haft afskipti af ökumönnum vegna búnaðar ökutækja og mun halda því áfram næstu vikur.