07/10/2024

Strandamaður ársins 2008

1Nú liggur fyrir hverjir komast í seinni umferðina í kosningu á Strandamanni ársins sem fer fram hér á vefnum strandir.saudfjarsetur.is í fimmta skipti. Þeir sem fengu flestar tilnefningar og kosið verður á milli að þessu sinni eru Bjarni Ómar Haraldsson á Hólmavík, Ingibjörg Sigvaldadóttir á Svanshóli og Sigurður Atlason á Hólmavík. Hægt er að skila inn atkvæðum til miðnættis næstkomandi sunnudag, þann 15. febrúar. Hver einstaklingur má aðeins kjósa einu sinni og verður hann að skrá fullt nafn og kennitölu á skráningarforminu svo atkvæðið sé gilt. Hægt er að smella hér til að taka þátt í kosningunni, en hér fyrir neðan gefur að líta umfjöllun um þá sem keppa til úrslita:

Bjarni Ómar Haraldsson á Hólmavík er tónlistarmaður, stjórnandi Tónskólans og Félagsmiðstöðvarinnar Ozon og einn eigenda fyrirtækisins Óskaþrif. Síðasta haust gaf Bjarni út hljómdiskinn Fyrirheit sem var að hluta unninn á Ströndum. Hann hélt viðamikla útgáfutónleika á Hólmavík og smærri tónleika víða um land. Þá stjórnaði Bjarni tónlistarflutningi í uppsetningu á Dýrunum í Hálsaskógi auk þess að koma að fleiri menningarviðburðum. Í umsögnum um Bjarna segir að hann hafi "unnið geysimikið verk í menningarlífi ungra sem aldinna", "stjórnað Ozon með miklum myndarbrag", og sé "ómetanlegur fyrir samfélagið okkar". Þá  segir einnig að Bjarni sé "barngóður og þolinmóður kennari" og að ekki megi "gleyma Óskaþrifum sem er atvinnuskapandi og skemmtileg nýjung".

Ingibjörg Sigvaldadóttir frá Svanshóli er elsti íbúi Strandasýslu, en hún varð 96 ára á síðasta ári. Ingibjörg var húsmóðir á Svanshóli í Bjarnarfirði í fjöldamörg ár og ól þar upp fimm syni ásamt eiginmanni sínum, Ingimundi Ingimundarsyni. Ingibjörg hefur síðustu misseri dvalist á Heibrigðisstofnuninni á Hólmavík og er enn við góða heilsu. Í umsögnum þeirra sem tilnefndu Ingibjörgu segir að hún sé "hafsjór fróðleiks, uppspretta af visku um svæðið, fólkið og menninguna" og "eldgömul, eldhress, fordómalaus, fróð og skemmtileg". Eins segja þeir sem hana tilnefna að það eigi að "heiðra hana Ingu og taka hana sem fyrirmynd" og ennfremur að hún sé "dugnaðarforkur", "bara snillingur" og "hress, kát og hörkunagli".

Sigurður Atlason á Hólmavík er framkvæmdastjóri Strandagaldurs sem stendur m.a. fyrir Galdrasýningunni á Hólmavík. Sigurður hefur starfað ötullega að framgangi menningar og ferðaþjónustu á Ströndum í gegnum tíðina, m.a. með því að koma á laggirnar klasasamstarfinu Arnkötlu 2008. Jóladagatal Strandagaldurs vakti mikla athygli á árinu, en það vann Sigurður með leikskólabörnum á Hólmavík sem hafa einnig fjölmennt á sunnudagsbíó sem Sigurður og Strandagaldur hafa staðið fyrir síðan í haust. Um Sigurð segir í tilnefningum að hann hafi "gert svo marga frábæra hluti fyrir börnin", "fái allskonar frábærar hugmyndir og hrindi þeim í framkvæmd" og að hann sé "langflottastur" og "líflegur og skemmtilegur einstaklingur sem fer sínar eigin leiðir".

Veldu þinn Strandamann með því að smella hér.