12/12/2024

Dalir og Hólar – listsýning

Dalir og Hólar er heiti á sýningarverkefni í Dölum, við Breiðafjörð og á Ströndum sem stuðlar að samstarfi milli heimafólks og aðkominna um handverk og listir. Náttúra og menning svæðisins er uppspretta verkanna og er skólahús gamla landbúnaðarskólans í Ólafsdal og umhverfi hans útgangspunktur sýningarinnar. Skólinn var á mörkum þeirra þriggja sýslna sem sýningin spannar og naut stuðnings sveitanna í kring á öndvegisdögum sínum. Vegna þessa var ákveðið að nýta húsið sem þungamiðju sýningarinnar og tengja þaðan í lykilstaði í nágrannasveitarfélögum. Einn hluti sýningarinnar verður í Sauðfjársetrinu í Sævangi, listaverkið Jæja eftir Strandamanninn Guðjón Ketilsson.

Kveikja sýningarinnar er löngun til að taka þátt í mannlífi svæðisins, varpa ljósi á menningarverðmæti, efna til samstarfs við heimafólk og hvetja gesti til könnunar á umhverfi og menningu á Vesturlandi og á Vestfjörðum. Sýningin fer þannig fram á 4 stöðum: í húsi gamla Landbúnaðarskólans í Ólafsdal, á Sauðfjársetrinu í Sævangi við Steingrímsfjörð, í Byggðasafni Dalamanna að Laugum í Sælingsdal og í Bátasafni Breiðafjarðar á Reykhólum.

Sýningin leiðir gesti um svæðið með því að staðsetja verk sýningarinnar á fjórum stöðum og prenta leiðakort – sem jafnframt er sýningarskrá. Verkefnið er samvinnuverkefni sem tengir listir, handverk og byggðarlög og stuðlar að auknu samstarfi milli heimafólks og aðkomufólks, einstaklinga og menningastofnana á Vestfjörðum, Vesturlandi og víðar.

Menningarráð Vesturlands og Menningarráð Vestfjarða styrkja viðburðinn.

Höfundar verkanna eru:

Aðalsteinn Valdimarsson
Ásdís Thoroddsen / Hálfdán Theódórsson
Guðjón Ketilsson
Guðjón Kristinsson
Hannes Lárusson
Hafsteinn
Hildur Bjarnadóttir
Hlynur Helgason
Rúnar Karlsson
Sólveig Aðalsteinsdóttir
Unnar Auðarson
Þóra Sigurðardóttir

Sýningin verður opin 9. – 30. ágúst 2009 kl. 14-18 alla daga, sjá nánar http://artinfo.is/olafsdalur/.