Á fundi byggðarráðs Dalabyggðar í dag var samþykkt svohljóðandi bókun um að farið verði í vegabætur um Laxárdalsheiði: "Byggðarráð Dalabyggðar skorar á Vegamálastjóra að bjóða hið fyrsta út framkvæmdir við endurbætur á veginum um Laxárdal. Vegurinn um Laxárdal er þjóðleið sem tengir Vesturland við Norðvesturland en er ekki boðlegur eins og ástand hans er í dag. Tafir og forgangsröðun samgönguyfirvalda hafa um langt árabil bitnað á íbúum Dalabyggðar og er mál að linni. Færa þarf samgönguleiðir innan svæðisins frá því að vera moldarslóðar í það að geta talist boðlegar á 21. öldinni."