Héraðsbókasafn Strandamanna stóð fyrir dagskrá á Degi íslenskrar tungu á mánudaginn var og var mikið um dýrðir. Nokkur menningaratriði voru á dagskrá, áður en menn snéru sér að kaffi og kleinum sem voru á boðstólum, og fylgja myndir hér að neðan. Meðal annars voru endurtekin atriði Strandamanna á hátíðardagskrá Háskóla Íslands á föstudaginn, en þar voru tónlistarmenn frá Hólmavík í eldlínunni.
Jón Jónsson, menningarfulltrúi Vestfjarða, kynnti dagskrána, auk þess sem hann sagði frá ævi og afrekum Jónasar Hallgrímssonar skálds og flutti kvæði eftir hann.
Nemendur í Tónskólanum á Hólmavík fluttu tónlist, Anna Lena, Agnes, Daníel og Magnús, en lagið og textinn sem þau fluttu eru eftir strákana í hópnum.
Bjarni Ómar Haraldsson flutti lög af nýútkominni sólóplötu sinni Fyrirheit við mikinn fögnuð áheyrenda.
Arnar S. Jónsson leiklas frumsamda sögu og gerði flutningurinn mikla lukku, en sagan bar titilinn Sagan af Jóni káta. Arnar hafði áður flutt söguna sína um Jón káta á Leikskólanum Lækjarbrekku á föstudaginn, en þar hefur hann leiklesið sögur á Degi íslenskrar tungu síðustu árin.
Hluti af áhorfendum – Ljósm. Jón Jónsson og Ester Sigfúsdóttir