12/09/2024

Byggð á Ströndum í varnarbaráttu

Í Fréttablaðinu hefur undanfarið birst mikill greinaflokkur um byggðaþróun og í dag voru Vestfirðirnir teknir fyrir. Sveitarfélögin í landinu eru þarna skoðuð út frá sex mælikvörðum sem notaðir hafa verið til að leggja mat á hvort byggð þar sé lífvænleg. Er þumalputtareglan sú að svo sé ekki ef sveitarfélögin séu undir viðmiðunarmörkum í tveimur af þessum kvörðum. Skemmst er frá því að segja að samkvæmt þessari úttekt er byggð á Ströndum öll í hættu. Upplýsingar eru birtar um launatekjur, íbúafækkun, meðalaldur og fleiri atriði í úttektinni sem ætti að vera áhugavert fyrir stjórnendur sveitarfélaganna og þá sem vinna að atvinnuuppbyggingu í héraðinu að glugga í.

Fyrst er litið til íbúaþróunar síðastliðin aldarfjórðung og er viðmiðunin sú að ef íbúum hefur fækkað á þeim tíma um helming er byggðin í hættu. Í Árneshreppi hefur á þessum tíma, samkvæmt Fréttablaðinu, fækkað um 72%, um 42% í Kaldrananeshreppi, 43% í Bæjarhreppi og 29% í Strandabyggð. 

Í öðru lagi er litið til þess hvort íbúum hafi fækkað um meira en 10% síðasta áratug, en þeim hefur á þeim tíma fækkað um 2% í Bæjarhreppi, 23% í Kaldrananeshreppi, 27% í Strandabyggð og 43% í Árneshreppi. 

Mælikvarðarnir er þó ekki allir jafn raunhæfir, t.d. snýst einn þeirra um þéttleika byggðar og falla þau sveitarfélög á prófinu sem ná ekki 2 íbúum á ferkílómetra. Bolungarvík er eina sveitarfélagið á Vestfjörðum sem stenst þessa kröfu, en á Ströndum búa 0,07 íbúar á hverjum ferkílómetra í Árneshreppi, 0,24 í Bæjarhreppi, 0,21 í Kaldrananeshreppi og 0,27 í Strandabyggð.

Fjórði mælikvarðinn er meðalaldur og þykir það hættumerki ef hann er yfir 38 árum. Samkvæmt Fréttablaðinu er hann 41,6 ár í Árneshreppi, 40,7 ár í Bæjarhreppi (!), 38,3 ár í Kaldrananeshreppi og 35,3 ár í Strandabyggð. Rétt er að vekja athygli á að ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is hefur ekki sannreynt tölurnar sem koma fram í úttektinni í Fréttablaðinu, en það hefur að minnsta kosti misstigið sig í útreikningnum á meðalaldri í Bæjarhreppi, því í fljótu bragði virðist okkur að hann sé ekki nema 35 ár og lægstur á Ströndum og því ætti Bæjarhreppur ekki að falla á þessum mælikvarða. Sumar aðrar tölur eru líka grunsamlegar, en heildarmyndin ætti eftir sem áður að vera nærri lagi.

Fimmti mælikvarðinn snýst um meðalmánaðartekjur og þykir byggð í hættu ef þær eru meira en 10% undir landsmeðaltali. Fréttablaðið segir að þær séu 44% undir landsmeðaltali í Bæjarhreppi og 39% í Árneshreppi og eru það lægstu tölurnar á Vestfjörðum. Í Strandabyggð eru meðaltekjur sagðar 19% undir landsmeðaltali en hins vegar 37% yfir þeim í Kaldrananeshreppi.

Sjötti mælikvarðinn snýst um hvort fjöldi kaupsamninga vegna íbúðarhúsnæðis sé undir landsmeðaltali og svo er í öllum hreppum á Ströndum.

Árneshreppur fellur þannig á öllum sex mælikvörðunum samkvæmt úttekt Fréttablaðsins, en Kaldrananeshreppur og Strandabyggð á fjórum þeirra. Bæjarhreppur fellur á þremur mælikvörðum ef tekið er tillit til leiðréttingar okkar hér að ofan. 

Einnig koma fram áhugaverðar upplýsingar um meðaltekjur íbúa, atvinnuleysi og fleiri þætti. Þar kemur t.d. fram að í Árneshreppi eru meðalmánaðartekjur 198.499.- og atvinnuleysi 8,1%. Í Kaldrananeshreppi eru meðaltekjur sagðar 447.096.- og atvinnuleysi 4,3%. Í Strandabyggð eru meðaltekjur 264.477.- og atvinnuleysi 2,9% og í Bæjarhreppi eru meðaltekjur 182.820.- og atvinnuleysi 4,7%. Rétt er að vekja athygli á að meðalmánaðartekjur á landinu öllu eru 326.782.-, en ef rétt er reiknað hjá Fréttablaðinu samsvara meðalmánaðartekjur í Kaldrananeshreppi tveimur og hálfum mánuði í Bæjarhreppi.