30/10/2024

Bryggjuhátíðin verður 16. júlí

Fyrsti fundur undirbúningshóps vegna hinnar árlegu Bryggjuhátíðar á Drangsnesi var haldinn í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi s.l sunnudagskvöld. Mæting var góð og fólk einhuga um að gera  Bryggjuhátíðina vel úr garði en þetta verður í tíunda sinn sem hún verður haldin.  Sé notuð hin fræga höfðatöluregla þá samsvarar mætingin því að rúmlega 16.000 Reykvíkingar mættu á fund vegna Listahátíðar í  Reykjavík.

Þrátt fyrir að dagsetning Bryggjuhátíðar hafi alltaf verið sömu helgi í júlí þá var þetta fyrsti formlegi fundur ársins, sem í raun tekur ákvörðun um það hvort og þá hvenær hátíðin skuli haldin.  Nú liggur sú ákvörðun fyrir og Bryggjuhátíðin 2005 verður þann 16. júlí. Engar stórvægilegar breytingar á dagskrá eru í vændum og enn er allt opið fyrir hugmyndum. Verkefnum er að venju skipt niður og taka hin ýmsu félög virkan þátt í skipulagningu og vinnu. Verði hagnaður af hátíðinni þá verður honum skipt á milli þessara félagasamtaka. 

Sjávarréttasmakk og varðeldur á Bryggjuhátíð