23/12/2024

Borgarísjaki á Steingrímsfirði

Heilmikinn borgarísjaka hefur rekið inn Steingrímsfjörð í dag. Hann fór hratt yfir í morgun og dag, en virðist nú hafa strandað úti fyrir Þorpum þó ferðir hans skýrist betur þegar birta tekur að nýju. Oft er sagt að einungis tíundi partur af borgarísjökum standi upp úr vatninu, þannig að heilmikið ferlíki er hér á ferðinni ef sú kenning er sönn og rétt. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is – Jón Jónsson á Kirkjubóli – hefur fylgst með jakanum eins og fleiri íbúar Stranda og smellt af honum myndum öðru hverju í dag. Reynt var að hafa hin og þessi hús með á myndinni til að menn fengju einhvern samanburð til að meta stærðina, því þegar jakinn er einn á myndinni er ómögulegt að segja til um þá hluti.

Ljósmyndir – Jón Jónsson