16/10/2024

Sögukort í Sævangi

Í gær var haldinn fundur í Sævangi um Sögukort fyrir Vestfirði sem nú er í smíðum að undirlagi Rögnvaldar Guðmundssonar ferðamálafræðings. Hefur hann fengið Ferðamálasamtök Vestfjarða, sveitarfélög á Vestfjörðum og samgönguráðherra og fleiri aðila í lið með sér. Stefnt er að því að vinnu við sögukortið verði lokið á þessu ári og það gefið út í kringum næstu áramót og það verði síðan notað til kynningar á Ströndum og Vestfjörðum. Á fundinn með Rögnvaldi mættu fulltrúar frá sveitarfélögum á Ströndum, auk starfsmanna Sögusmiðjunnar á Kirkjubóli og var farið yfir sögu sýslunnar og sérkenni sem hugsanlega mætti nýta á slíku sögukorti.

Voru fundarmenn kátir með framtakið og leist  vel á verkefnið. Uppkast á að liggja fyrir í lok maí og verður það sent fundarmönnum og fulltrúum hreppanna til umsagnar.

Rétt er að taka fram að myndin af Sævangi sem fylgir þessari frétt var tekin í dag, en ekki gær. Hún á að hallast svona, það eykur mjög á listrænt gildi hennar.