22/11/2024

Bollukaffi á Sauðfjársetrinu á sunnudag

645-saevangur
Sunnudaginn 10. febrúar kl. 14:00 -17:00 verður Bollukaffi í Sauðfjársetrinu í Sævangi og verða margvíslegar bollur á boðstólum. Verð fyrir aðgang að hlaðborðinu er kr. 1.000,- fyrir fullorðna, kr. 600,- fyrir 6-12 ára og frítt fyrir yngri. Fyrir þá sem þyrstir í fróðleik er sögustund kl. 16:00, en þá mun Jón Jónsson þjóðfræðingur segja frá siðum og venjum sem fylgja bollu-, sprengi- og öskudegi og hefur erindið yfirskriftina: Hvað á að éta á öskudaginn?

Einnig hafa verið ákveðnir viðburðir á Sauðfjársetrinu tvo næstu sunnudaga, Þann 17. febrúar verður spurningaleikurinn Kaffikvörn og hefst kl. 16:00 og eru allir velkomnir og kaffiveitingar innifaldar í aðgangseyri.

Sunnudaginn 24. febrúar verður svo sunnudagskaffi frá 14-17 og sögustund kl. 16:00 en þar mun áðurnefndur Jón Jónsson flytja skemmtilestur um flakkarann Sölva Helgason sem ber yfirskriftina: Sölvi Helgason – frægastur allra förumanna. Jón skrifaði á sínum tíma meistaraprófsritgerð í þjóðfræði um flakkara í gamla íslenska bændasamfélaginu og hefur haldið marga fyrirlestra og gert útvarpsþætti um efnið.