Á milli jóla og nýárs stendur Héraðsbókasafn Strandasýslu fyrir skemmtikvöldi um bækur, Strandir og Strandamenn í félagsheimilinu á Hólmavík. Bókahátíðin verður 28. desember og hefst kl. 19:00, en hún verður nánar auglýst síðar. Athyglinni verður beint að bókum um og eftir Strandamenn, með sérstakri áherslu á persónulegar heimildir og ljóðagerð Strandamanna. Frásagnir, upplestur og söngur er á dagskránni.
Fjallað verður um rithöfunda í hópi Strandamanna og góðir gestir koma í heimsókn. Þeirra á meðal er Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur sem ritað hefur um dagbækur og fleiri persónulegar heimildir Strandamanna, m.a. bækurnar Bræður á Ströndum og Menntun, ást og sorg.
Umsjón með bókahátíðinni hefur Ester Sigfúsdóttir forstöðumaður Héraðsbókasafnsins. Hún lætur af störfum hjá bókasafninu um áramótin, en tekur á sama tíma við starfi framkvæmdastjóra Sauðfjárseturs á Ströndum.