22/12/2024

Bjarni með Fyrirheit á Skagaströnd og Hvammstanga

Bjarni ÓmarHólmvíkingurinn Bjarni Ómar mun halda tvenna tónleika um helgina og verða þeir fyrri í kvöld, föstudaginn 12. desember í Kánrýbæ á Skagaströnd og þeir seinni á Café Síróp á Hvammstanga laugardagskvöldið 13. desember.  Á tónleikunum mun Bjarni kynna nýútkomna plötu sína Fyrirheit sem fengið hefur mjög góða dóma og sagði Morgunblaðið m.a. plötuna vera fölskvalausa og að vandað væri til verka í hvívetna. Lagasmíðarnar eru melódískt popp í rólegri kantinum þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, bæði ungir sem aldnir.

Fyrirheit er önnur sólóplata Bjarna en árið 1998 gaf hann út plötuna Annað líf. Bjarni er deildarstjóri Tónskólans á Hólmavík og hefur fengist við útgáfu og tónlistarflutning bæði sem trúbador og söngvari og gítarleikari í hljómsveitinni Kokkteil frá Raufarhöfn.

Með Bjarna í för er Stefán Jónsson píanóleikari sem einnig kemur frá Hólmavík. Útgáfutónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 20:30 og er frítt inn. Bjarni mun selja og árita diskinn fyrir og eftir tónleikana fyrir þá sem vilja njóta rólegheita og kósí stemmningar svona rétt fyrir jólin.