27/12/2024

Bjarnavík, stúlkan og krummi

bjarnavik2

Söguþáttur eftir Jón Jónsson.
Innan við Ós í Steinsgrímsfirði er svokölluð Óstafla eða Ósborgir og undir þeim innanverðum er lítil vík sem heitir Bjarnavík. Þar var forðum býli, að því er munnmælin segja. Sagt er að á Bjarnavík hafi einu sinni verið stúlka niðursetningur. Hafði hún fyrir vana að gefa hröfnunum matarbita, þegar húsbændurnir sáu ekki til, en þeir voru harðlyndir og strangir. Eitt sinn þegar stúlkan kom út og ætlaði að gefa krumma, vildi hann ekki taka við matnum, en lét á sér skilja með krunki, hoppum og látæði, að hann vildi að stúlkan fylgdi sér. Stúlkan elti krumma með matinn allt út undir túngarð, að útihúsum sem stóðu innar í víkinni. Þegar hún var komin þangað skipti engum togum að stór grjótskriða féll úr hlíðinni yfir bæinn og fórust húsbændurnir þar, en stúlkan bjargaðist og átti hrafninum líf sitt að launa. Enn má sjá garða og tóftir gægjast undan mikilli grjótskriðu þarna í Bjarnavík. 

bjarnavik1 bjarnavik3 bjarnavik4 bjarnavik5

krummi

Bjarnavík og krummi – Ljósm. Jón Jónsson