Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku. Föstudaginn 20. janúar varð bílvelta á Steingrímsfjarðarheiði, þar hafnaði bíll út fyrir veg og valt. Ekki varð slys á fólki, en bifreiðin fjarlægð af vettvangi með krana. Sama dag var ekið á hross á veginum við Skeljavík rétt sunnan Hólmavíkur. Ekki varð slys. Mánudaginn fyrir viku fór svo dráttarbíll frá Skeljungi með eftirvagn fullan af bensíni út af í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi. Strax voru gerðar viðeigandi ráðstafanir þar sem mikil eldhætta var á staðnum og slökkvilið Ísafjarðarbæjar fór á vettvang. Veginum um Djúp var strax lokað.
Það var síðan undir morgun að slökkviliðinu tókst að tryggja vettvang, aftengja rafgeyma dráttarbílsins til minka hugsanlega eldhættu. Í framhaldi af því var hafist handa um að dæla bensíninu út vagninum. Gekk það greiðlega og um kl. 10:00 á þriðjudagsmorgun var því að mestu lokið og vegurinn opnaður aftur. Umtalsvert magn af bensíni fór niður og var dælubíll notaður til að ná sem mestu upp úr vatnsrásinni þar sem bíllinn valt. Nokkuð greiðlega gekk að ná dráttarbílnum og vagninum upp og í framhaldi voru tækin flutt til Ísafjarðar.
Færð á vegum í umdæminu var frekar slæm, snjór og mikil hálka og áttu ökumenn víða í vandræðum á ferðum sínum. Lögregla hvetur vegfarendur til að kynna sér ástand vega og færð áður en lagt er í langferð og minnir á síma Vegagerðarinnar 1777 og 1779, þar sem hægt er að fá upplýsingar um færð og veður.
Skemmtanahald í umdæminu gekk nokkuð vel og án teljandi afskipta lögreglu, en þorrablót voru víða haldin á laugardagskvöldinu.