Leikfélag Hólmavíkur æfir nú af kappi leikritið Ballið á Bessastöðum í samstarfi við Grunnskóla Hólmavíkur. Höfundur leikverksins er Gerður Kristný og er það byggt á bókum hennar; Ballið á Bessastöðum og Prinsessan á Bessastöðum. Tónlistin er eftir Braga Valdimar Skúlason og þau Gerður Kristný eiga sameiginlega söngtexta sýningarinnar. Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir er leikstjóri. Ballið á Bessastöðum er dæmalaust gleðilegur söng- og gamanleikur fyrir börn og fullorðna þar sem við fáum innsýn í líf og störf forsetans og starfsfólksins á Bessastöðum, kynnumst alvöru prinsessu og konungshjónum. Við förum í útilegu, brúðkaup, hittum landnámshænu og skoðum skýin. Á Bessastöðum er alltaf nóg af draugagangi, kransakökum, fálkaorðum og fjöri! Frumsýning leikritsins verður föstudaginn 18. mars kl. 20:00 í Félagsheimilinu á Hólmavík.