22/12/2024

Bættar samgöngur

Á fundi hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps þann 7. des. var m.a. lagt fram uppkast að umsögn hreppsnefndar til verkefnisstjórnar um sameiningu sveitarfélaga. Í umræðum kom fram að sveitarstjórnarmenn telja að það sé forsenda fyrir möguleikum á sameiningu sveitarfélaga í Strandasýslu og hugsanlega A.-Barðastrandarsýslu að farið verði í verulegar vegaframkvæmdir og heilsárs vegasamgöngur verði tryggðar um allt sveitarfélagið.

Af öðrum málum sem tekin voru fyrir á fundinum má nefna að Hólmavíkurhreppur samþykkti að hafna því að leggja fjármagn í stofnun markaðsskrifstofu ferðamála á Vestfjörðum, sem rætt hefur verið um á vettvangi Fjórðungssambands Vestfirðinga. Bókaði fundurinn að hreppsnefnd sjái ekki ávinning í að taka þátt í verkefninu að svo stöddu.

Á hinn bóginn var tekið fyrir erindi um sögukort fyrir Vestfirði frá Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar og var samþykkt að Hólmavíkurhreppur styrki útgáfuna með kr. 250.000.- ef heildarfjármögnun fæst.

Á fundinum sátu hreppsnefndarmennirnir Haraldur V.A. Jónsson oddviti, Valdemar Guðmundsson, Eysteinn Gunnarsson, Kristín S. Einarsdóttir og Björn Hjálmarsson varamaður. Einnig sat sveitarstjóri fundinn.

Vefur Hólmavíkurhrepps er á slóðinni: www.holmavik.is.