05/11/2024

AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi auglýsir eftir umsóknum


AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi starfar á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og veitir m.a. styrki til rannsókna- og þróunarverkefna sem auka verðmæti sjávarfangs. AVS rannsóknasjóður hefur að markmiði að styrkja verkefni, sem stuðla að auknu verðmæti íslensks sjávarfangs og styrkja samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs og fiskeldis. Sjóðurinn auglýsir nú eftir umsóknum í verkefni með þetta að markmiði. Skilafrestur umsókna er til kl. 17:00, þann 3. desember 2012. Nánar má fræðast um málið á vef sjóðsins www.avs.is.

Styrkir sem sjóðurinn veitir falla undir eftirfarandi flokka:

a. Styrkir til rannsókna- og þróunarverkefna
Styrkir til afmarkaðra rannsókna- og/eða þróunarverkefna, sem falla að markmiðum sjóðsins. Veittur er styrkur til eins árs í senn og skal í umsókn gera grein fyrir verkþáttum og fjármögnun. Hver styrkur getur numið allt að átta milljónum króna. Hægt er að sækja um styrki til umfangsmeiri verkefna (framhaldsverkefna), sem unnin eru á lengri tíma, eða allt að þremur árum, en sækja þarf um styrk á hverju ári. Hafi verkefnið áður verið styrkt, þarf að gera grein fyrir fullnægjandi framvindu verkefnisins áður en styrkumsókn er afgreidd.
b. Smá- eða forverkefni
Hægt er að sækja um styrki til smærri verkefna eða verkefna til undirbúnings stærri verkefna á sviði rannsókna og/eða þróunar. Styrkupphæð er allt að einni milljón króna og skal verkefninu lokið innan tólf mánaða frá úthlutun.
 
c. Atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum
Veittir eru styrkir til verkefna, sem stuðla að nýjum störfum og aukinni verðmætasköpun í sjávarbyggðum. Horft er til ýmissa verkefna, sem geta tengst t.d. framboði á sjávarfangi, ferðaþjónustu, nýjum vörum eða þjónustu. Hámarkstími verkefna er 12 mánuðir og hámarksupphæð styrkja er þrjár milljónir króna. Um alla styrki gildir að framlag sjóðsins má ekki fara fram yfir 50% af heildarkostnaði og sjóðurinn tekur ekki þátt í að styrkja fjárfestingar.