22/11/2024

Atvinnuþróunarfélag Stranda?

Smábátahöfnin á HólmavíkÁ aðalfundi Héraðsnefndar Strandasýslu um síðustu helgi kom atvinnusköpun á svæðinu nokkuð til umræðu. Meðal annars var rætt um möguleika á að auka starfshlutfall hjá framkvæmdastjóra Héraðsnefndar og hvort mögulegt væri að nýta krafta slíks starfsmanns í atvinnuþróunarvinnu fyrir svæðið. Samhliða þessu var rætt um Vaxtarsamning Vestfjarða og þótti héraðsnefndarmönnum Strandasýsla vera nokkuð afskipt í þeirri skýrslu. Veltu menn því fyrir sér og ræddu á fundinum hvort að Atvinnuþróunarfélagið á Ísafirði og Fjórðungssambandið væru að skila einhverju inn í samfélagið hér á Ströndum.

Fram kemur í fundargerð að héraðsnefndarmönnum þykir jaðarsvæðin verða mjög útundan síðan byggðakjarnastefna stjórnvalda var tekin upp. Niðurstaðan á fundinum var sú að kanna málin og vilja sveitarfélaga á Ströndum í þessum efnum fyrir Héraðsnefndarfund í haust og taka þessi mál þá aftur til umræðu. Var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Aðalfundur Héraðsnefndar Strandasýslu haldinn að Sævangi 2. apríl 2005 samþykkir að héraðsráð kanni viðhorf sveitarfélaga í sýslunni til að ráða starfsmann til að vinna að verkefnum sem snúa að atvinnu og ferðamálum. Héraðsráð verði falið að að undirbúa málið og semja drög að verklýsingu. Afstaða sveitarstjórna liggi fyrir ekki síðar en á næsta Héraðsnefndarfundi.“ 

Líklegt má telja að sveitarstjórnarmenn á Ströndum telji sveitarfélögin ekki hafa burði til að halda úti sérstökum starfskrafti við atvinnuþróun nema því aðeins að þau dragi sig út úr þátttöku í vestfirska samstarfinu. Sveitarfélög á Ströndum hafa á síðustu misserum öll hafnað þátttöku í Markaðsskrifstofu Vestfjarða, en stofnun slíkrar skrifstofu hefur verið í undirbúningi vestra hjá AtVest og Fjórðungssambandi Vestfjarða. Kynningarfundur um markaðsskrifstofu verður haldinn á Hólmavík á fimmtudaginn kemur.