25/11/2024

Átaksverkefni fyrir verslanir í dreifbýli

Verslunum á landsbyggðinni býðst að taka þátt í verkefninu Verslun í dreifbýli sem miðar að aukinni fagmennsku við rekstur verslana og fjölbreyttari þjónustu við íbúa. Verkefnið er hluti af evrópsku samstarfsverkefni, Retail in Rural Regions, og styrkt af Norðurslóðaáætluninni og Norður Atlantshafsnefndinni (NPP og NORA). Verkefnið er reynsluverkefni og hefur íslenski hluti þess verið þróaður af Rannsóknarsetri verslunarinnar við Háskólann að Bifröst, Byggðastofnun, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, SSNV – Atvinnuþróun og Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga.  

Megintilgangur verkefnisins er að styrkja rekstrargrundvöll verslana í dreifbýli og býðst verslunum sem taka þátt eftirfarandi þjónusta:

1. Stöðumat og stefnumótun
Atvinnuráðgjafi fer ásamt eiganda/stjórnanda verslunar yfir stöðu verslunarinnar og settar eru fram hugmyndir um hvernig hægt er að styrkja reksturinn.

2. Þjálfun og námskeið á Bifröst
Sérsniðið námskeið og þjálfun við Háskólann á Bifröst. Kennsla fer fram í þrjú skipti, í janúar, mars og október 2011. Í hvert sinn verður kennt á föstudegi og laugardegi. Gist er á staðnum.

Kennd verða fjögur fög:
Kaupmennska: Skipulag verslunar og vöruframsetning, samspil innra skipulags verslunar og markaðsaðgerða.   
Markaðssetning í nærsamfélagi: Farið yfir grunnþætti markaðssetningar og hagnýting þeirra í litlum samfélögum.
Birgðahald: Stjórnun birgðahalds, innkaupa og vöruflutninga.
Hagnýt upplýsingatækni og áætlanagerð: Kennt er hvernig hægt er á raunhæfan hátt að hagræða í rekstri með hjálp upplýsingatækni.  
Lögð áhersla á að þátttakendur beri saman reynslu sína og læri hver af öðrum.

3. Markaðskönnun
Stuðst verður við niðurstöður úr nýrri rannsókn Rannsóknarseturs verslunarinnar um viðhorf neytenda, sveitarstjórna og fyrirtækja til verslunar í heimabyggð. Niðurstöður þessara rannsókna geta meðal annars nýtst við val á aðferðum við markmiðssetningu verslunarinnar.

4. Stuðningur atvinnuráðgjafa
Atvinnuráðgjafi á svæðinu  mun vera til  aðstoðar og ráðgjafar allan verkefnistímann.

Þátttökugjald hvers þátttakanda er 46.000 kr. Innifalið í því er þátttaka í námskeiði á Bifröst í þrjú skipti ásamt fæði og gistingu.

Allar nánari upplýsingar um verkefnið gefur Guðrún Eggertsdóttir verkefnastjóri hjá Atvest í síma 490 2350.