04/10/2024

AVS – Styrkir til atvinnuþróunar og nýsköpunar í sjávarbyggðum landsins

AVS sjóðurinn auglýsir eftir umsóknum og að þessu sinni stendur umsækjendum til boða að sækja um í nýjan flokk verkefna, atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum landsins, auk hefðbundinna verkefna. Umsækjendum geta sent inn umsóknir þar sem sérstök áhersla er lögð á atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum landsins. Þarna verður fyrst og fremst lögð áhersla á styttri verkefni sem eiga að vinnast á innan við 12 mánuðum og geta skapað ný störf og aukin verðmæti í sjávarbyggðum vítt og breitt um landið. AVS sjóðurinn er tilbúinn til að leggja fram að hámarki 50% af kostnaði verkefnanna og verður hámarksstyrkur 3 m.kr.

Mikilvægt er að leggja fram vel rökstuddar og arðvænlegar hugmyndir að verkefnum sem geta aukið fjölbreytni og eflt atvinnu og verðmætasköpun.

Lykilhugtök í þessum nýja verkefnaflokki AVS eru m.a. matarferðamennska, hönnun, nýtt hráefni, sjálfbærni, uppruni, ferðaþjónusta, vöruþróun, fullvinnsla, vörur í smásölu eða á borð neytenda, nýjar tegundir, smáframleiðsla o.fl.

AVS sjóðurinn býður áfram upp á hefðbundin verkefni með sömu áherslum og áður, en því miður þá verður framlag til sjóðsins skorið umtalsvert niður þannig að ekki verður mögulegt að styðja jafnmörg verkefni á næsta ári og undanfarin ár.

Umsóknafrestur er þriðjudagurinn 1. febrúar 2011. Nánari upplýsingar á www.avs.is.